Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster V27
Kristján Axel Tómasson (1), Halldór Pálmar Halldórsson (2), Gunnar Þór Hallgrímsson (1)
(1) Háskóli Íslands, Líf og umhverfisvísindadeild, (2) Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum
Kynnir / Presenter: Kristján Axel Tómasson
Tengiliður / Corresponding author: Gunnar Þór Hallgrímsson (gunnih@hi.is)
Blóðsníkjudýr innan ættkvíslanna Haemoproteus, Plasmodium og Leucocytozoon finnast í fuglum. Þessi frumdýr tilheyra öll ættbálknum Haemospororida og geta valdið langvarandi sýkingum í hýslum og leitt til skertrar heilsu þeirra. Þetta á sérstaklega við þegar fuglar eru undir stressi eða álagi t.d. á fari og yfir varptíma, og geta frumdýrin haft áhrif á heilbrigði fuglanna og lífslíkur þeirra. Sníkjudýrin berast á milli hýsla með smitberum sem oft eru flugur af ættbálki tvívængja (Diptera). Í smitberunum þroskast egg og lirfur sníkjudýranna sem berast í næsta hýsil með biti. Við bit komast lirfur sníkjudýranna í blóð hýsils þar sem þær þroskast og brjótast loks inn í rauð blóðkorn þar sem þau fjölga sér og dreifast með skiptingu blóðfrumunnar í dótturfrumur. Í þessari rannsókn var skimað eftir blóðsníkjudýrum úr nokkrum tegundum strandfugla, þ.e. tildru, sanderlu, silfurmáfs, hvítmáfs, svartbaks, bjartmáfs og sílamáfs. Einungis fundust blóðsníkjudýr í sílamáfum og var í öllum tilfellum um að ræða frumdýr innan Haemoproteus ættkvíslarinnar. Af þeim 20 sílamáfum sem voru skoðaðir fundust sníkjudýr í 11 einstaklingum, og voru að meðaltali 4,73 sýktar frumur af 100.000 frumum í hverju sýni. Lág tíðni sýktra fruma bendir til þess að máfarnir hafi smitast tiltölulega nýlega fyrir sýnatöku.