Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster V26
Karl Skírnisson (1), Damien Jouet (2), Ólöf Guðrún Sigurðardóttir (1), Aðalsteinn Örn Snæþórsson (3), Ólafur Karl Nielsen (4)
1. Tilraunastöðin á Keldum, 2. Háskólinn í Reims í Frakklandi, 3. Náttúrustofa Norðausturlands, 4. Náttúrufræðistofnun Íslands
Kynnir / Presenter: Karl Skírnisson
Tengiliður / Corresponding author: Karl Skírnisson (karlsk@hi.is)
Bandormar eru sníkjudýr með flókna lífsferla. Lífsferillinn hefst þegar millihýsill étur bandormsegg, lirfan sem klekst úr egginu fjölgar sér kynlaust. Stundum koma við sögu fleiri en einn millihýsill. Þeir sem ofar eru í röðinni fá í sig lirfur við að éta fyrsta millihýsilinn og svo koll af kolli uns lokahýslinum er náð en hann er alltaf hryggdýr. Fullorðinsstigið er þarmasníkjudýr og þar verpa ormarnir eggjum sem síðan berast út í umhverfið með saur hýsilsins. Í tengslum við rannsóknir Harald Krabbe á sullveiki á Íslandi árið 1863 kom í ljós að bandormurinn Mesocestoides canislagopodis var algengur í villtum ref (Vulpes lagopus) og fannst auk þess í hundum og köttum. Engin tilvik eru þekkt frá Íslandi um að fólk hafi smitast. Lífsferillinn er að hluta til óþekktur. Fyrsta lirfustigið (e. onchosphere) er óþekkt en líklegt er talið að það sé að finna í skordýrum sem éta refaskít og fá þannig ofan í sig egg bandormsins. Sértök leit hefur verið gerð hér á landi að næsta lirfustigi í lífsferlinum (e. tetrathyridium) og hefur það nýverið fundist bæði í rjúpu (Lagopus muta) og hagamús (Apodemus sylvaticus) í Þingeyjarsýslum. Rannsóknir hafa sýnt að flestir fullorðnir refir eru smitaðir af refabandormi. Fálkar (Falco rusticolus) hafa einnig fundist með óþroskaða refabandorma í iðrum. Lirfur og fullorðinsstig bandormsins eru útlitslega frábrugðin lífsform en raðgreiningar (cox1 og 12S rDNA) hafa staðfest að hér er sama tegund á ferðinni. Tilvist M. canislagopodis lirfa í rjúpu og hagamús er staðfest í fyrsta sinn í þessari rannsókn. Fullorðinsstigið virðist aftur á móti einungis ná fullum þroska í spendýrum en ekki fuglum líkt og fálka.