Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster V18
Bryndís Marteinsdóttir (1), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (1) og Kristín Svavarsdóttir (2)
1. Háskóli Íslands, 2. Landgræðsla Ríkisins
Kynnir / Presenter: Bryndís Marteinsdóttir
Tengiliður / Corresponding author: Bryndís Marteinsdóttir (bryndism@hi.is)
Enn eru auðnir hálendisins nýttar til beitar. Langvarandi ágreiningur hefur verið um áhrif beitar á lítt gróið land og beit oft réttlætt með því að beitarþungi sé lítill. Þó hafa nær engar rannsóknir verið gerðar á áhrifum beitar á slíku landi. Landnám plantna og framvinda gróðurs hafa verið rannsökuð á Skeiðarársandi frá árinu 1998. Gróðurbreytingar eru hægar víðast hvar á sandinum og meirihluti hans hefur litla gróðurþekju (<10%). Síðastliðin ár hafa gengið þar um 200 lambær á sumri og beitarþungi því mjög lítill (<0,01 á/hektara). Sumarið 2004 voru 10 stórir rannsóknarreitir girtir af með það að markmiði að fylgjast með langtímaáhrifum beitarfriðunar á sjálfgræðslu sandsins og meta þannig áhrif sauðfjárbeitar. Á lítt grónum svæðum, líkt og á Skeiðarárandi, þar sem vaxtarskilyrði plantna eru slæm, getur það tekið marga áratugi þar til áhrif friðunar koma fram á stigi plöntusamfélaga. Friðun gæti hins vegar skilað sér fyrr í áhrifum á vöxt og fræframleiðslu einstakra plantna. Fyrstu niðurstöður benda til þess að 10 árum eftir friðun sé lítill munur á tegundasamsetningu og gróðurþekju innan og utan girðingar. Mælingar á einstaka plöntum sumarið 2015 gefa hins vegar vísbendingar um að beitin geti haft neikvæð áhrif á vöxt og fræframleiðslu. Niðurstöður okkar benda því til að lítil sauðfjárbeit hafi áhrif á sjálfgræðslu sandsins.