Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster V16

Breytingar á gróðurfari í kjölfar sauðfjárbeitar á lúpínubreiður

Ása L. Aradóttir (1), Inga Vala Gísladóttir (1)

Landbúnaðarháskóla Íslands

Kynnir / Presenter: Ása L. Aradóttir

Tengiliður / Corresponding author: Ása L. Aradóttir (asa@lbhi.is)

Alaskalúpína (Lupinus nootkatensis) er ágeng plöntutegund sem finnst víða um land. Þótt talið sé að sauðfjárbeit geti haldið lúpínu í skefjum eru fáar rannsóknir til um áhrif beitar á gróðurframvindu í lúpínubreiðum. Í tilraunum sem hófust árið 1995, til kanna áhrif lúpínu á landnám og ræktun birkis, voru lagðir voru út tilraunareitir í þéttum lúpínubreiðum, gisnum jöðrum lúpínubreiða og lítt grónum reitum utan lúpínubreiða á fjórum stöðum á landinu. Þar var meðal annars fylgst með þekju og tegundasamsetningu gróðurs fram til ársins 1997 og mælingarnar síðan endurteknar árið 2011. Öll rannsóknarsvæðin voru friðuð fyrir búfjárbeit þar til eitt þeirra, Svínafell í Öræfum, var opnað fyrir sauðfjárbeit upp úr síðustu aldamótum. Beitin í Svínafelli virðist hafa verið nokkuð þung, því árið 2011 fannst þar hvorki tangur né tetur af birkiplöntum sem voru í tilraunareitunum árið 1998. Öll lúpína var líka horfin í tilraunareitum þar sem áður voru þéttar lúpínubreiður, en örfáar stakar lúpínuplöntur (<1% þekja) fundust þar sem áður voru gisnar breiður eða lítt grónir áraurar. Árið 1995 voru mun færri æðplöntutegundir í reitum með þéttum lúpínubreiðum en þar sem lúpínan var gisnari eða ekki til staðar, en tegundaauðgin var orðin sú sama árið 2011. Sömuleiðis dró nokkuð saman í þekju og tegundasamsetningu með tímanum. Þó var meira af grösum og blómjurtir í reitum þar sem áður var þétt lúpína en smárunnar og fléttur voru frekar áberandi í reitum sem lagðir voru út á lítt grónum áraurum.