Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster V15

Er hægt að eyða lúpínu? Niðurstöður samanburðartilraunar í Stykkishólmi

Kristín Svavarsdóttir(1), Ása L. Aradóttir(2), Menja von Schmalensee(3), Anne Bau(1) og Róbert A. Stefánsson(3)

1) Landgræðsla ríkisins, 2) Landbúnaðarháskóli Íslands, 3) Náttúrustofa Vesturlands

Kynnir / Presenter: Kristín Svavarsdóttir

Tengiliður / Corresponding author: Kristín Svavarsdóttir (kristins@land.is)

Alaskalúpína (Lupinus nootkatensis) hefur verið notuð í landgræðslu og skógrækt í áratugi. Útbreiðsla hennar hefur vaxið mikið síðustu ár og nemur hún í auknum mæli gróið land. Því hafa ýmis sveitarfélög ráðist í eyðingu og stýringu á útbreiðslu lúpínunnar. Samhliða skipulögðum slætti lúpínu í sveitarfélaginu Stykkishólmsbæ var sett út tilraun árið 2010 þar sem borinn var saman árangur af því að eyða lúpínu með slætti og plöntueitri en til viðmiðunar voru óhreyfðir lúpínureitir. Tilraunin var lögð út í rofið mólendi sem lúpína hafði lagt undir sig, alls 15 tilraunareitir (5 x 20 m) í fimm blokkum. Frá árinu 2010 hafa lúpínuplöntur verið slegnar eða eitraðar árlega í viðeigandi reitum. Lúpína hafði gefið verulega eftir í slegnum og eitruðum reitum strax ári eftir að aðgerðir hófust og árið 2015 var þekja hennar og þéttleiki blómstrandi lúpínuplantna marktækt minni en í óhreyfðum lúpínureitum. Tegundaauðgi jókst í slegnum og eitruðum reitum milli mælinga en minnkaði í óhreyfðu reitunum. Tegundasamsetning reita breyttist mikið á tímabilinu, munur á milli óhreyfðra reita og reita með inngripum jókst með tímanum og munaði mest á slegnum og óhreyfðum reitum 2015. Slegnir reitir höfðu flestar tegundir, mesta þekju grasa og blómplantna og minnst af lúpínu. Það sem skildi eitraða reiti frá þeim slegnu var að í þeim var um þriðjungur yfirborðs gróðursnauður og þekja grasa var marktækt minni. Árlegur sláttur virðist vera vænleg leið til að takmarka útbreiðslu lúpínu.