Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster V14
Elín Guðmundsdóttir (1), Úlfur Óskarsson (1), Ásrún Elmarsdóttir (2)
1. Landbúnaðarháskóli Íslands 2. Náttúrufræðistofnun Íslands
Kynnir / Presenter: Elín Guðmundsdóttir
Tengiliður / Corresponding author: Elín Guðmundsdóttir (elin@na.is)
Jarðvegur á víðfeðmum grónum svæðum á Reykjum í Ölfusi tók að hitna vegna breytinga í jarðhitakerfum í kjölfar Suðurlandsskjálftans sem varð 29. maí 2008. Þessar jarðhitabreytingar hrundu af stað rannsóknarklasanum FORHOT þar sem stundaðar eru rannsóknir á sviði jarðhitavistkerfa og loftslagsbreytinga. Hér verður stuttlega fjallað um einn þátt í þessari vinnu, þar sem áhrif jarðvegshita á plöntutegundir í graslendi voru rannsökuð. Gróðurþekja var metin í 88 reitum þar sem jarðvegshiti var mishár og samanburður gerður við reiti utan áhrifasvæðis jarðhita. Heildarþekja gróðurs var metin og tegundir greindar. Aðrir mældir þættir voru: hæð gróðurs, jarðvegsdýpt, jarðvegshiti og birta. Í graslendinu fundust 31 tegundir háplantna og lágplantna. Fjöldi plöntutegunda minnkaði með auknum hita í graslendi. Í graslendi jókst hlutfall lágplantna með auknum jarðvegshita hlutfall háplantna lækkaði. Ljóst er að hitaþol einstakra plöntutegunda er mismunandi og niðurstöðurnar sýndu greinilegan mun milli tegunda og fáar tegundir fundust þar sem hiti var hár. Bornar verða saman nokkrar háplöntur og lágplöntur og ólíkum viðbrögðum þeirra við jarðhita velt upp.