Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster K2
Anna Veronika Bjarkadóttir (1) og Edda Olgudóttir (1)
Hvatinn, veffjölmiðill
Kynnir / Presenter: Anna Veronika Bjarkadóttir og Edda Olgudóttir
Tengiliður / Corresponding author: Anna V Bjarkadóttir og Edda Olgudóttir (hvatinn@hvatinn.is)
Hvatinn er nýr veffjölmiðill sem sérhæfir sig í fréttaflutningi á vísindum hvaðanæva að úr heiminum. Fram að opnun Hvatans var vöntun á slíkum miðli og þurftu Íslendingar að treysta á stopular fréttir af vísindum sem birtust á almennum fjölmiðlum. Erlendar fyrirmyndir Hvatans hafa verið starfræktar í fjölda ára og má þar nefna ScienceAlert og IFLScience Tilgangur Hvatans er fyrst og fremst að færa vísindin af þeim ósnertanlega stalli sem þau virðast oft sitja á í huga almennings. Á síðunni birtast að mestu leyti fréttir af nýlega birtum rannsóknum, aðsendir pistlar og efni sem sýnir spaugilegar hliðar vísindanna. Einnig er þar að finna fróðleiksmola sem ætlað er að varpa ljósi á títt notuð og oft torskilin hugtök vísindamanna. Hvatinn flytur fréttir af vísindum á einfaldan hátt svo vísindalegur bakgrunnur er óþarfur fyrir lesendur fréttanna. Á sama tíma hafa fréttir Hvatans þann tilgang að vekja áhuga almennings á vísindum og þeim rannsóknum sem birtar eru daglega. Framtíðarsýn Hvatans liggur meðal annars í því að miðla enn frekar fréttum úr vísindageiranum á Íslandi. Íslenskir vísindamenn sem og áhugamenn um vísindi hafa hér tækifæri til að koma á framfæri sínum uppgötvunum, afrekum og skoðunum til íslenskra lesenda til dæmis með aðsendum pistlum eða fréttatilkynningum. Með tilkomu vísindafjölmiðils á borð við Hvatann opnast því bæði dyr fyrir vísindamenn að útskýra vinnu sína og fyrir almenning að skilja betur um hvað vísindin fjalla.