Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster E67

Umhverfisþættir og útbreiðsla laxfiska á vestanverðum Vestfjörðum

Sigurður Már Einarsson og Jón S Ólafsson

Veiðimálastofnun

Kynnir / Presenter: Sigurður Már Einarsson

Tengiliður / Corresponding author: Sigurður Már Einarsson (sigurdur.mar@veidimal.is)

Á svæðinu frá Patreksfirði til Súgandafjarðar fer nú fram stórfelld uppbygging sjókvíeldis og fiskistofnar í ánum geta lent undir álagi. Nær ekkert er vitað um útbreiðslu fisktegunda og veiðinýtingu straumvatna á þessu svæði. Sumarið 2015 hófst verkefni sem hefur að markmiði að kanna útbreiðslu og stöðu laxfiska, auk þess að afla grunnupplýsinga um frjósemi vatnsfalla í þessum landshluta með tilliti til þörunga, botndýra og laxfiska. Valin voru 16 vatnsföll þar sem gerð var úttekt á fiskgengum hluta hvers vatnsfalls. Skráð var vatnafar og lengd fiskgengra hluta, greind einkenni vatnasviða hvers vatnsfalls, þar sem mæld var þekja gróðurs, vatna og votlendis út frá tiltækum gagnagrunnum. Í hverri á var mæld rafleiðni vatns (μS/cm), sýrustig (pH) og vatnssýni tekin til greininga á efnainnihaldi. Síritandi hitamælum var komið fyrir í 14 ám í júní og þeir látnir mæla út september á klst. fresti. Magn blaðgrænu (Chlorophyll-a) var mælt á staðnum auk sýnatöku til greininga á þörungum af botni. Rekháfar voru notaðir til að mæla magn reks og þar með aðgengilega fæðu fyrir fiska. Rafveitt var á einni stöð í hverri á til að meta tegunsdasamsetningu, þéttleika og vöxt fiskseiða auk þess sem sýnum af fæðu í mögum var safnað. Fyrst niðurstöður benda til að staða bleikjunnar á svæðinu sé fremur veik. Vestfirðir hafa löngum verið taldir eitt af höfuðvígjum bleikjunnar hérlendis, en í þessari athugun var bleikja eingöngu ríkjandi í ám í Önundarfirði og í Hænuvíkurá við Patreksfjörð. Lax var öflugur í nokkrum ám m.a. í Staðará í Súgandafirði, Sandsá á Ingjaldssandi, Sunndalsá í Trostansfirði og Dufansdalsá við Bíldudal. Lax virðist hafa verið að nema land á þessu svæði á undanförnum árum m.a. í Staðará í Súgandafirði og er þar orðinn uppistaða í veiðinýtingu. Samkeppnisstaða laxins batnar með hlýnandi veðurfari og getur mögulega skýrt þessar niðurstöður. Urriði mældist einnig víða öflugur sérstaklega í ám við Arnarfjörð. * sigurdur.mar@veidimal.is Styrktaraðili verkefnis: Fiskræktarsjóður