Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster E66

Fiskar á fjöllum – Smábleikjur í vötnum á Ófeigsfjarðarheiði

Haraldur R. Ingvason og Finnur Ingimarsson

Náttúrufræðistofa Kópavogs

Kynnir / Presenter: Haraldur R. Ingvason

Tengiliður / Corresponding author: Haraldur R. Ingvason (haraldur@natkop.is)

"Þrátt fyrir áratuga rannsóknir á lífríki ferskvatns hér á landi finnast afar takmarkaðar upplýsingar um fiska á hálendi Vestfjarðakjálkans. Í september 2015 voru rannsökuð þrjú vötn á Ófeigsfjarðarheiði á Ströndum; Neðra Eyvindarfjarðarvatn, Efra Hvalárvatn og Nyrðra Vatnalautarvatn, m.a. til að kanna hvort, og þá hvers lags fisk væri þar að finna. Vötnin eru í um 300 m h.y.s. Umhverfi þeirra er afar hrjóstrugt og nánast gróðurvana. Enginn vatnagróður sást ef frá er talinn lítilsháttar mosi. Vatnshiti, sýrustig og leiðni eru lág á íslenskan mælikvarða. Í hvert vatn var lagt eitt net með mismunandi möskvastærðum og látið liggja yfir nótt. Alls veiddust 85 fiskar; 58 í Hvalárvatni og 27 í Vatnalautarvatni, en ekki varð vart við fisk í Eyvindarfjarðarvatni. Allir fiskar sem veiddust voru smávaxnar bleikjur, lítilsháttar undirmynntar og augnstórar, með áberandi blettum á hliðum (e. parr marks). Lengd þeirra var 7,9–15,6 cm, þyngdin var 6,9–35,8 g og aldur var á bilinu 3–12 ár. Hlutfall kynþroska fiska var um 80%. Holdastuðull var um 1. Vorflugulirfur voru áberandi í fæðu. Nokkur munur reyndist á sníkjudýrabyrði milli vatna. Kynþroska smábleikju (dvergbleikju) hefur oft verið lýst úr köldum og/eða fæðusnauðum lindavatnskerfum. Þótt bleikjan á Ófeigsfjarðarheiði sé vissulega kynþroska smábleikja virðist hún í ýmsu frábrugðin áðurnefndum dvergbleikjum. Löngu tímabært er að kanna útbreiðslu bleikju í þessu hrjóstruga búsvæði og skyldleika hennar innbyrðis og við aðra stofna."