Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster E63
Lilja Þorsteinsdóttir (1), Sigurbjörg Þorsteinsdóttir (1), Vilhjálmur Svansson (1).
1. Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, Keldum v/Vesturlandsveg, Reykjavík
Kynnir / Presenter: Lilja Þorsteinsdóttir
Tengiliður / Corresponding author: Lilja Þorsteinsdóttir (liljatho@hi.is)
Íslenski hesturinn er sértakur stofn sem hefur verið einangraður frá öðrum stofnum í a.m.k. 1000 ár. Vegna einangrunarinnar hefur skapast einstakt tækifæri til að rannsaka nýja og gamla sýkla í innræktuðum hópi með fáa smitsjúkdóma. Hestar hýsa tvær gerðir gammaherpsveira, EHV-2 og EHV-5. Nánast allir hestar eru sýktir af EHV-2 og líklega flestir af EHV-5. Folöld smitast á unga aldri frá móður um efri öndunarfæri en endursýkingar með öðrum stofnum eru einnig tíðar. Veirurnar valda yfirleitt vægum eða engum sjúkdómseinkennum við frumsýkingu. Markmið verkefnisins var að kanna smitferil gammaherpesveira í folöldum og mæðrum þeirra frá köstun og yfir fyrstu tvö æviárin. Tekin voru blóð- og nefstrokssýni úr 15 folöldum með reglulegu millibili yfir tveggja ára tímabil og úr mæðrunum fyrstu 6-7 mánuðina eftir köstun. Reynt var að rækta upp herpesveirur í hestafósturfrumum úr hvítfrumum úr blóði og úr nefstrokssýnunum frá öllum sýnatökutímapunktum. DNA var einangrað úr jákvæðum ræktum, úr blóði og nefstroki og prófaði í rauntíma PCRi fyrir bæði EHV-2 og EHV-5. Veiruræktun tókst frá tveggja daga gömlum folöldum, sem er fyrr en áður hefur verið birt. Ræktunartíðni var hæst við þriggja mánaða aldur en öll folöldin voru jákvæði í veirurækt bæði úr hvítfrumum og nefstroki á þeim tímapunkti. Rauntíma PCR niðurstöður sýna að um helmingur ræktanna reyndist vera blanda af EHV-2 og EHV-5, tæplega helmingur EHV-2 eingöngu og þrjár ræktir voru af gerð EHV-5. Unnið er að magnmælingu á veirubyrði í blóði og nefstrokssýnum með rauntíma PCR.