Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster E61
Antonella Fazio (1,2) , Sigríður Guðmundsdóttir (1), Ívar Örn Árnason (1), Bergljót Magnadóttir (1), Caterina Faggio (2), Birkir Þór Bragason (1)
1. Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, Keldum, Keldnavegi 3, 112 Reykjavík, 2. Department of Biological and Environmental Sciences, University of Messina, Ítalía.
Kynnir / Presenter: Birkir Þór Bragason
Tengiliður / Corresponding author: Birkir Þór Bragason (birkirbr@hi.is)
Þorskur er með sérstætt ónæmiskerfi að því leyti að hann skortir gen fyrir mikilvæga þætti áunna ónæmissvarsins, þ.e. MHC-II, CD4 og invariant chain. Bráðasvar (e. acute phase response) er hraðvirkt viðbragð meðfædda ónæmissvarsins sem á sér stað í kjölfar sýkingar eða áverka. Bráðasvar var framkallað í þorskseiðum í eldi (um 100g að þyngd) með því að sprauta í vöðva lifandi kýlaveikibróður-bakteríu (Aeromonas salmonicida subsp. achromogenes). Viðmið voru sprautuð með saltdúa. Blóð- og vefjasýnum (nýra, milta og lifur) var safnað áður en meðhöndlun hófst og síðan á sama hátt úr sýktum og ósýktum seiðum 1, 24, 72 og 168 klst. eftir sprautun. Magn kortisóls í blóðvatni var mælt með ELISA prófi og tjáning eftirfarandi gena var mæld með rauntíma PCR: interleukin-1b (IL-1b), transferrin, hepsidín, CRP-PI og CRP-PII (CRP: C-reactive protein), complement þáttur C3 og apolipoprotein A1 (ApoA-I). Framköllun bráðasvars í kjölfar sýkingar var staðfest með mælingu kortisóls, sem jókst marktækt í blóðvatni. Öll genin voru tjáð að jafnaði í vefjunum, en breytingar í tjáningu þeirra í kjölfar sýkingar var mismunandi milli vefja og mest í milta. Tjáning IL-1b, transferríns og hepsidíns jókst eftir sýkingu í öllum þremur vefjum, en tölfræðilega marktæk aukning á CRP-PI, C3 og ApoA-I greindist bara í milta. Þetta er fyrsta rannsókn í þorski á áhrifum sýkingar með lifandi bakteríu á ofangreinda þætti. Niðurstöðurnar renna stoðum undir þátttöku þeirra í bráðasvari þorsks.