Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster E60
Fjóla Rut Svavarsdóttir (1)*, Mark A. Freeman (1,2), Þórólfur Antonsson (3), Friðþjófur Árnason (3), Árni Kristmundsson (1)
1. Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, Keldnavegur 1-3, 112 Reykjavík, 2. Ross University School of Veterinary Medicine, Basseterre, St. Kitts, West Indies, 3. Veiðmálastofnun, Árleyni 22, 112 Reykjavík.
Kynnir / Presenter: Fjóla Rut Svavarsdóttir
Tengiliður / Corresponding author: Fjóla Rut Svavarsdóttir (frs13@hi.is)
PKD-nýrnasýki (Proliferative kidney disease) er alvarlegur sjúkdómur sem herjar á laxfiska. Orsakavaldur sjúkdómsins er smásætt sníkjudýr, Tetracapsuloides bryosalmonae (T.b.) en sníkjudýrið þarf tvo hýsla til að ljúka sínum lífsferli, laxfiska og mosadýr. Uppkoma sjúkdómsins er beintengd vatnshita sem þarf að ná a.m.k. 12-14°C í nokkrar vikur svo fiskur sýni sjúkdómseinkenni. Fiskur í kaldara umhverfi getur þó verið Tb-smitaður án þess að sýna einkenni sjúkdómsins. PKD-nýrnasýki greindist fyrst á Íslandi í október 2008 og síðan þá hafa verið í gangi rannsóknir, bæði á sjúkdómsvaldinum og útbreiðslu mosadýra. Fyrir 2008 var ekkert vitað um tilvist T.b. í íslensku vistkerfi né hvort nauðsynlegir hýslar (mosadýr) væru almennt til staðar. Samkvæmt nýlegri rannsókn eru mosadýr algeng í íslensku ferskvatni og því allar forsendur til staðar fyrir sníkjudýrið að viðhalda lífsferli sínum. Með sameindalíffræðilegum aðferðum (PCR), hefur nú tekist að greina T.b. í 9 vötnum hér á landi úr nýrnasýnum fiska sem veiddir voru á árunum 1994-1998. Tilvist T.b. í íslensku vistkerfi hefur nú verið staðfest löngu fyrir fyrstu greiningu sjúkdómsins. Með hlýnandi veðurfari síðustu áratugi hafa líkindum skapast forsendur fyrir uppkomu sjúkdómsins. Áhugavert er að skoða hvenær þeim forsendum hefur verið náð og hvaða áhrif það hefur haft á þróun stofna laxfiska í vötnum og ám landsins, þá sérstaklega með tilliti til bleikjustofna sem mörgum hverjum hefur hnignað mikið síðustu ár.