Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster E58
Sigríður Guðmundsdóttir (1), Birkir Þór Bragason (1), Ívar Örn Árnason (1)
Tilraunastöð H.Í. í meinafræði, Keldum, Keldnavegi 3, 112 Reykjavík
Kynnir / Presenter: Sigríður Guðmundsdóttir
Tengiliður / Corresponding author: Sigríður Guðmundsdóttir (siggag@hi.is)
Laxaseiði, alin í fullri seltu og bleikjuseiði í 15‰ voru sýkt með því að sprauta 5x106 CFU af bakteríunni Renibacterium salmoninarum, sem veldur nýrnaveiki í laxfiskum, í kviðarhol. Viðmiðunarfiskar fengu PBS. Sýktum og PBS-fiskum var dreift jafnt í tvö ker fyrir hvora tegund. Sýnum var safnað áður en tilraunin hófst og 1, 4, 7, 10, 14 og 22 dögum eftir upphaf hennar. Þróun sýkingar var metin í sýnum úr framnýra. Notað var ELISA próf sem mælir mótefnavaka bakteríunnar og snPCR próf sem nemur DNA úr bakteríunni. Ósérhæft ónæmisviðbragð (innate immune reaction) var skoðað með því að mæla tjáningu á MHC-I, cathelicidin, NADPH og TGFb. Viðmiðunargen var ELF-1a. Vísar voru valdir/hannaðir þannig að þeir greindu sömu raðir í genum beggja fisktegunda til að auka á samanburðarhæfni niðurstaðna. RNA til þessara mælinga var einangrað úr framnýra og RT-qPCR (SYBR green) notað til að mæla tjáninguna. ELISA-mælingar sýndu marktækt meira magn mótefnavaka í framnýra hjá bleikju en laxi er leið á sýkingartímann. Áður en meðhöndlun hófst, voru öll genin tjáð í framnýra. Marktæk aukning varð á tjáningu cathelicidins sem er bakteríudrepandi peptíð, á NADPH sem kemur við sögu í súrefnisháðu bakteríudrápi og TGFb sem hefur hemjandi áhrif á bólgusvar. Aukning í tjáningu MHC-I mældist í laxi en ekki bleikju. MHC-I á yfirborði sýktra frumna sýnir T-drápsfrumum búta úr próteinum innanfrumusýkla. Rætt verður um það hvort þetta geti átt þátt í aukinni uppsöfnun mótefnavaka hjá bleikju.