Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster E57

Eru sjúkdómsvaldandi stofnar af Pasteurella multocida ólíkir stofnum sem finnast í heilbrigðum sauðfjárlungum?

Þorbjörg Einarsdóttir, Ólöf G. Sigurðardóttir, Einar Jörundsson, Eggert Gunnarsson og Sigríður Hjartardóttir

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Kynnir / Presenter: Þorbjörg Einarsdóttir

Tengiliður / Corresponding author: Þorbjörg Einarsdóttir (thorbje@hi.is)

Inngangur: P. multocida er oft hluti af lungnaflóru heilbrigðra kinda, en getur einnig valdið lungnapest, alvarlegri lungnasýkingu sem einkennist af sárum hósta, hita og lystarleysi. Við könnuðum hvort P. multocida bakteríur úr kindum með klínísk einkenni lungnapestar væru frábrugðnar bakteríum úr kindum án lungnapestareinkenna. Efniviður og aðferðir: P. multocida bakteríur voru einangraðar úr lungnasýnum úr kindum með klínísk einkenni lungnapestar og úr einkennalausum sláturkindum. Hylkjagerð var könnuð með PCR og erfðabreytileiki kannaður með því að raðgreina 16S rDNA, toxA og multilocus sequence type (MLST) gen. Niðurstöður: Enginn breytileiki fannst í 16S geninu, og takmarkaður breytileiki í toxA geninu. Flestar bakteríur úr sláturkindum voru af hylkjagerð D og MLST 131. Bakteríur úr lungnapestarkindum voru mun breytilegri og báru hylkjagerð A, D eða F. Engin bakteríanna var með áður birta MLST gerð. Ályktanir: P. multocida einangraðar úr lungnapestarkindum voru mun breytilegri en P. multocida úr sláturkindum. Breytileikinn gæti verið „degenerate“ og stafað af örum vexti. Ólíklegt er að þetta sé eina orsök breytileikans, því hluti bakteríanna úr lungnapestarlungum bera gen sem tjá fyrir hylkjagerð A eða F. Einnig fundust tengsl milli breytileika í MLST genum og hylkjagerð. Það er mögulegt að allir P. multocida stofnar geti valdið sjúkdómi við kjöraðstæður, en við teljum að flest sjúkdómstilfelli orsakist af stofnum sem eru ólíkir stofnum P. multocida í normal flóru lungna.