Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster E56
Stefán Ragnar Jónsson (1), Aðalbjörg Aðalbjörnsdóttir (1), Nicky Mietrach (1), Josh Kane (2), Reuben S. Harris (3), Nevan Krogan (2), Valgerður Andrésdóttir (1)
1. Tilraunastöð Háskóla Íslands í Meinafræði að Keldum, 2. Department of Molecular and Cellular Pharmacology, University of California, San Francisco, 3. Department of Biochemistry, Molecular Biology and Biophysics, University of Minnesota
Kynnir / Presenter: Stefán Ragnar Jónsson
Tengiliður / Corresponding author: Stefán Ragnar Jónsson (stefanjo@hi.is)
Lífverur hafa frá örófi alda þróað með sér varnir gegn retróveirusýkingum. Dæmi um slíkt eru APOBEC3 próteinin en þau eru fjölskylda cytósín deaminasa sem geta hindrað retróveirur með því að afaminera cýtósín í úrasil í einþátta DNA á meðan á víxlritun stendur og valda þannig G-A stökkbreytingum í erfðaefni veirunnar. Lentiveirur hafa mótleik við þessu, veirupróteinið Vif sem er nauðsynlegt fyrir sýkingargetu veirunnar. Vif notar ubiquitin kerfi frumunnar til að senda APOBEC3 til niðurbrots í proteasómi. Vif prótein HIV og SIV þurfa umritunarþáttinn CBFbeta til að miðla virkni sinni. CBFbeta reyndist hins vegar ekki nauðsynlegur fyrir virkni Vif próteina FIV, BIV og MVV. Nýlega kom í ljós að cyclophilin A tengist við þrjú prólín (P21, P24 og P192) í Vif próteini MVV. Í þessari rannsókn var þessi tenging við cyclophilin A könnuð nánar. Útbúnar voru sýkingarhæfar mæði-visnuveirur með hverri stökkbreytingu fyrir sig og saman. Eftirmyndunarhraði veiranna var athugaður bæði í makrofögum og í SCP frumum. Auk þess voru innlimaðar veirur úr sýktum frumum magnaðar upp og raðgreindar til að athuga tíðni G-A stökkbreytinga. Í ljós kom að veira með stökkbreytingarnar þrjár (P21A, P24A og P192A) eftirmyndaðist hægar en villigerðarveira og veirur með hverja stökkbreytingu um sig. Einnig var hækkuð tíðni G-A stökkbreytinga í veirunni sem hafði stökkbreytingarnar þrjár, en það er merki um APOBEC3 áhrif. Niðurstöðurnar benda til að cyclophilin A hafi hlutverki að gegna við niðurbrot APOBEC3.