Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster E50

Bólusetning gegn sumarexemi: Prófun á sérvirkri mótefnasvörun á endurröðuðum ofnæmisvökum framleiddum í byggi

Sæmundur Bjarni Kristínarson (1), Sara Björk Stefánsdóttir (1), Sigríður Jónsdóttir (1), Vilhjálmur Svansson (1), Jón Már Björnsson (2), Arna Rúnarsdóttir (2) og Sigurbjörg Þorsteinsdóttir (1)

1. Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, 2. ORF Líftækni

Kynnir / Presenter: Sæmundur Bjarni Kristínarson

Tengiliður / Corresponding author: Sæmundur Bjarni Kristínarson (sbk13@hi.is)

Sumarexem er húðofnæmi í hestum orsakað af biti smámýs (Culicoides spp) sem lifir ekki á Íslandi. Tíðni sjúkdómsins er mjög há í útfluttum hrossum. Ofnæmisvakarnir hafa verið einangraðir og tjáðir og ferill sjúkdómsins skilgreindur. Fyrir þróun ónæmismeðferðar og mat á árangri hennar er mikilvægt að geta framleitt ofnæmisvakana í fleiri en einu tjáningarkerfi og á sem hagkvæmastan hátt. Markmið verkefnisins er að kanna hvort hægt sé að nota endurraðaða ofnæmisvaka framleidda í byggi til þess að prófa IgG svörun hesta sem bólusettir hafa verið með samsvarandi vökum framleiddum í E. coli. Tólf hestar voru bólusettir í eitla með Cul n 3 og Cul n 4 ofnæmisvökum hreinsuðum úr E. coli og sermissýni tekin eftir þrjár bólusetningar. Heildar IgG og IgG undirflokkasvörun var prófuð í elísaprófi á endurröðuðum Cul n 3 og Cul n 4 hreinsuðum úr E. coli, skordýrafrumum og byggi. Hestarnir sýndu kröftuga IgG svörun aðallega IgG1, IgG4/7 og IgG3/5 á bæði Cul n 3 og Cul n 4 úr öllum þremur tjáningarkerfum. Svarið var sterkast á E. coli framleiddu próteinunum enda bólusett með þeim. Svörun á byggframleiddu ofnæmisvakana var svipuð eða hærri en á þá sem framleiddir voru í skordýrafrumum. Nota má endurraðaða ofnæmisvaka framleidda í byggi til prófunar á mótefnasvari hesta sem bólusettir hafa verið með samsvarandi vökum framleiddum í E. coli. Verið er að prófa sömu ofnæmisvaka til að örva eitilfrumur og meta boðefnasvörun hjá bólusettu hestunum og IgE svörun hjá sumarexemshestum.