Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster E49

Sumarexem í hestum: myndun á sérvirku mótefnasvari eftir meðhöndlun um munn með byggi sem tjáir ofnæmisvaka

Sigrídur Jónsdóttir (1), Sara Björk Stefánsdóttir (1), Vilhjálmur Svansson (1), Eliane Marti (2), Einar Mäntylä (3), Jón Már Björnsson (3), Auður Magnúsdóttir (3), Ómar Gústafsson (3) og Sigurbjörg Þorsteinsdóttir (1)

1. Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Reykjavík, 2. Dýrasjúkdómadeild Háskólans í Bern, Sviss, 3. ORF Líftækni, Kópavogi.

Kynnir / Presenter: Sigrídur Jónsdóttir

Tengiliður / Corresponding author: Sigrídur Jónsdóttir (sij9@hi.is)

Sumarexem er IgE miðlað húðofnæmi í hestum orsakað af biti smámýs sem lifir ekki á Íslandi en tíðni sjúkdómsins er mjög há í útfluttum íslenskum hestum. Ofnæmisvakarnir sem valda exeminu hafa verið einangraðir, tjáðir og hreinsaðir. Ójafnvægi milli Th1, Th2, og T-stýrifruma virðist vera undirliggjandi orsök exemsins og því ætti að vera hægt að þróa ónæmismeðferð með örvun á Th1 og T-stýrifrumum. Markmið verkefnisins er að tjá ofnæmisvaka í byggi til að nota í ónæmismeðferð um munn. Ofnæmisvakinn Culn2 var tjáður í byggi með Orfeustækni. Fjórir hestar fengu sex skammta af möluðu Culn2 byggi uppleystu í saltvatni. Alls 400 gr með 40 mg af rCuln2 yfir fjögurra mánaða tímabil. Þrír samanburðarhestar fengu sömu meðhöndlun með blöndu úr óbreyttu byggi. Notuð voru sérhönnuð holmél fyllt ítrekað með byggblöndu sem hestarnir höfðu upp í sér í 3-5 klst meðhöndlunardagana. Tekin voru reglulega blóð og munnvatnssýni og mótefnasvar prófað í elísuprófi. Við höfum tjáð í byggi ofnæmisvakann Culn2, hýalúronidasa sem er upprunninn úr munnvatnskirtlum smámýsins C. nubeculosus. Hestar sem voru meðhöndlaðir um munn með Culn2 byggmjölsblöndu mynduðu mótefnasvar í blóði gegn Culn2 tjáðu í öðrum tjáningarkerfum. Mótefnasvarið var aðallega IgG1 og IgG4/7 en IgG5 og IgG6 var ekki mælanlegt. Það tókst að mynda sérvirkt mótefnasvar í hestum með því meðhöndlun um munn með byggi sem tjáir ofnæmisvaka. Vonast er til að hægt verði að nota þessa aðferð í ónæmismeðferð á hestum með sumarexem.