Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster E46
Einar Lövdahl Gunnlaugsson (1), Ágústa Þorbergsdóttir (2), Erna Magnúsdóttir (3)
1. Íslensku og menningardeild Háskóla Íslands, 2. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 3. Læknadeild Háskóla Íslands
Kynnir / Presenter: Einar Lövdahl Gunnlaugsson
Tengiliður / Corresponding author: Erna Magnúsdóttir (erna@hi.is)
Í opinberri málstefnu Íslendinga sem og lögum um íslenska tungu og íslenskt táknmál er skýrt kveðið á um að íslenskur fræðiorðaforði skuli efldur jafnt og þétt. Sé það hins vegar ekki gert hverfur smám saman möguleikinn á að ræða og skrifa um tiltekin vísindi á íslensku og þar með veikist staða íslenskrar tungu. Til að framfylgja fyrrnefndu markmiði er nauðsynlegt að halda úti metnaðarfullu og skipulögðu íðorðastarfi. Í sumar fór fram verkefni stutt af Nýsköpunarsjóði námsmanna við söfnun á íðorðum í lífvísindum, en nokkuð er um liðið síðan líforðum hefur verið safnað á kerfisbundinn hátt. Verkefnið fólst einkum í söfnun orða, samræmingu orðaforða, skipulagðri skráningu og nýmyndun orða sem lúta að lífvísindum almennt og tilteknum undirgreinum þeirra, þ.e. erfðafræði, frumulíffræði, þroskunarfræði og þróunarfræði. Íðorðastarfi innan fræðasamfélags lífvísinda hérlendis hefur verið ágætlega sinnt í gegnum árin en hefur jafnframt verið háð einstaklingsframtaki og sjálfboðastarfi að miklu leyti. Ber þar einna hæst að nefna Líforðasafn sem kom út árið 1997, unnið af Hálfdani Ómari Hálfdanarsyni og Þuríði Þorbjarnardóttur. Líforðasafnið er yfirgripsmikið og hefur að geyma um 8.000 flettur af hinum ýmsu sviðum líffræðinnar. Verkefnið var í stórum dráttum unnið þannig að enskum íðorðum var safnað saman upp úr enskum kennslubókum og í kjölfarið hittust sérfræðingar í fyrrnefndum undirgreinum lífvísinda á svokölluðum orðafundum þar sem farið var í gegnum lista yfir ensk íðorð og samsvarandi íslensk orð ýmist tínd til eða mynduð á staðnum. Því næst sá Einar Lövdahl, nemandi verkefnisins, um skipulagða skráningu og samræmingu orðalistanna uns þeir voru lesnir inn í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar sem viðbót við Líforðasafnið. Afrakstur verkefnisins var með öðrum orðum yfirgripsmikill viðbót við íslenskan fræðiorðaforða innan lífvísinda – rúmlega 600 flettur – sem mun vonandi nýtast fræðasamfélaginu vel og verða öðrum hvatning til að rækta íðorðaforðann enn frekar.