Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster E41

Vif prótein mæði-visnuveiru

Valgerður Andrésdóttir (1), Sigríður Rut Franzdóttir (2), Stefán Ragnar Jónsson (1), Ólafur S. Andrésson (2)

1. Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, 2. Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands

Kynnir / Presenter: Valgerður Andrésdóttir

Tengiliður / Corresponding author: Valgerður Andrésdóttir (valand@hi.is)

Mæði-visnuveira (MVV) er retroveira af flokki lentiveira og veldur aðallega lungnabólgu (mæði) eða heilabólgu (visnu) í sauðfé. Mæði-visnuveiran var fyrst einangruð og skilgreind á Keldum og var lengi prótótypa fyrir lentiveirur, þangað til HIV fékk þá stöðu. Á undanförnum árum hefur komið í ljós að lífverur hafa komið sér upp ýmsum vörnum til þess að verjast retroveirum, en u.þ.b. 8 % af erfðaefni manna og músa er retroveiruleifar. Fundist hafa prótein í spendýrafrumum sem virðast hafa það hlutverk eitt að verja frumurnar fyrir retroveirum. Þessi prótein eru afamínasar (deaminases) og nefnast APOBEC3. Flestar lentiveirur, þ.á.m. bæði HIV-1 og MVV hafa prótein sem nefnist Vif, sem ver þær fyrir APOBEC3 með því að merkja APOBEC3 til niðurbrots í proteasome kerfi frumunnar og koma þannig í veg fyrir að það pakkist inn í veirur. Við höfum sýnt að úrfelling Vif próteins MVV hefur það í för með sér að APOBEC3 pakkast í veirur og hindrar fjölgun þeirra. Við höfum einnig sýnt að stökkbreytingar í Vif og hylkispróteini virka saman þannig að veiran getur ekki fjölgað sér í makrofögum og sýkir ekki kindur, en hvorug stökkbreytingin ein og sér hefur þessi áhrif. Þessi stökkbreyting hefur ekki þau áhrif að koma í veg fyrir niðurbrot APOBEC3, þar sem veirur úr makrofögum hafa ekki hækkaða tíðni G-A stökkbreytinga. Við teljum þess vegna að þessi stökkbreyting lýsi áður óþekktri virkni Vif.