Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster E28

Tengsl átgetu og þrifa sauðfjár við ástand gróðurs og beitarálag

Sigþrúður Jonsdóttir

Landgræðsla ríkisins

Kynnir / Presenter: Sigþrúður Jónsdóttir

Tengiliður / Corresponding author: Sigþrúður Jónsdóttir (sigthrudur@land.is)

Sumarið 1989 var gerð beitartilraun með sauðfé á Auðkúluheiði til að kanna hve mikið sauðfé étur á beit, hvernig fæðan nýtist til vaxtar og hvernig mismikið beitarálag hefur áhrif á þessa þætti. Var þetta eitt af síðustu rannsóknum í svokölluðum „stóru breitartilraunum“ sem hófust 1975. Þær rannsóknir elfdu mjög fræðilega þekkingu á búfjárbeit á Íslandi. Rannsóknin var gerð í þremur í beitarhólfum sem notuð höfðu verið á Auðkúluheiði í beitarrannsóknum með sauðfé í 15 ár. Sami beitarþungi 0,28ær/ha var í öllum hólfunum en vegna fyrri nýtingar var beitarálagið mismikið, s.s. léttbeitt, miðlungsbeitt og þungbeitt hólf. Sumrinu var skipt upp í þrjú tímabil. Á hverju tímabili var uppskera mæld, átmagn reiknað og fé viktað. Niðurstöður voru bornar saman á milli hólfa og tímabila Uppskera gróðurs var mest í léttbeitta hólfinu og minnst í því þungbeitta. Lömbin uxu mest um miðbik beitartímans (yfir 300g/dag) en vöxtur féll verulega þegar leið á ágúst. Sama mynstur var á heildaráti, það var mest um miðbik beitartímans en féll síðsumars. Át lamba var marktækt meira í þungbeitta hólfinu framan af sumri en féll síðan verulega og var marktækt minna síðsumars en í léttbeitta hólfinu. Ekki var marktækur munur á vexti lamba milli hólfa á fyrstu tímabilum tilraunarinnar en í sumarlok var vöxtur marktækt minni í þungbeitta hólfinu. Át áa var mest á um miðbik beitartímans en minnst í lokin. Þá voru ær í þungbeitta og miðlungsbeitta hólfinu farnar að leggja af en ekki ær í léttbeitta hólfinu. Rannsóknin sýndi að á þungbeittu landi geta át og þrif sauðfjár haldist viðunandi fram eftir sumri en þegar líður á sumarið hrynur bæði átgeta og vöxtur og ær missa hold. Fæðunýting var betri í léttbeitta hólfinu.