Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster E27

Ástand lands, beit og mælanlegir vistkerfisþætti

Ólafur Arnalds

Landbúnaðarháskóli Íslands

Kynnir / Presenter: Ólafur Arnalds

Tengiliður / Corresponding author: ÓIafur Arnalds (oa@lbhi.is)

Mat á ástandi lands (land condition) er þverfaglegt viðfangsefni víða um lönd, en áhrif beitar á vistkerfi er háð ástandi landsins. Ástand lands endurspeglar virkni og þanþol vistkerfa, m.a hringrásir orku, vatns og næringar. Eðlisumhverfið, svo sem jarðvegsrof og nærveður, eru og mjög mikilvægir þættir sem sýnir ástand lands. Óstöðugt yfirborð og jarðvegsrof eru lokastig hnignunar: ört gengur á auðlindir eða vistkerfi eru hrunin. Slík kerfi þola afar illa að gengið sé á þann lífræna forða sem eftir er. Þanþol endurspeglast að hluta í gróðursamsetningu, forða næringarefna og umsetningu. Algengt er að miða núverandi ástand við a) getu (potential) viðkomandi svæðis, b) „eðlilegt ástand“ sé það þekkt, eða c) sett markmið um endurheimt landgæða. Þættir sem algengt er að mæla/meta eru jarðvegsrof, gróðurhula, samsetning og framleiðni gróðurs, fræsetning, ísig, sem og magn kolefnis og niturs í moldinni. Á svæðum neðan 400 m hæðar á Íslandi er eðlilegt að gera kröfu um nær fullgróið beitiland og að stærsti hluti hvers beitarsvæðis hafi virkar hringrásir orku, vatns og næringar. Beitiland á Íslandi er ekki einsleitt og því þarf að setja mismunandi viðmið fyrir hverja landeiningu og síðan heildarviðmið fyrir allt beitarsvæðið. Land þar sem jarðvegsrof er virkt og/eða auðnir hafa mikla hlutdeild getur ekki talist beitiland út frá vistfræðilegum, umhverfisfræðilegum og fjárhagslegum sjónarmiðum. Það tekur áratugi og jafnvel árhundruð að endurnýja hrunin úthagavistkerfi, en tíminn fer m.a. eftir hæð yfir sjó, landslagsþáttum og yfirborðsstöðugleika. Bata má hraða með markvissum inngripum en beit hefur því neikvæðari áhrif sem ástandið er verra.