Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster E17
Jónas Páll Jónasson (1) , Guðmundur Þórðarson (1) og Hrafnkell Eiríksson (1)
1.Hafrannsóknastofnun, Skúlagata 4, 101 Reykjavík
Kynnir / Presenter: Jónas Páll Jónasson
Tengiliður / Corresponding author: Jónas Páll Jónasson (jonasp@hafro.is)
Humarveiðar hafa verið stundaðar sleitulaust við suðurströnd Íslands frá árinu 1951. Megin útbreiðslusvæði leturhumars (Nephrops norvegicus) er á mjúkum botni á um 100 – 300 metra dýpi í nokkrum aðskildum djúpum frá Jökuldýpi í vestri austur í Lónsdýpi. Veiðarnar náðu hámarki árið 1963 þegar um 6000 tonnum var landað. Nokkrar sveiflur hafa einkennt veiðarnar en undanfarin áratug hefur veiðin verið á milli 1700 og 2500 tonn. Aflabrögð hafa verið nokkuð sveiflukennd, en frá árinu 2006 hefur afli á sóknareiningu verið hár og náði sínu hæsta gildi árið 2008 þegar um 110 kg veiddust á togtíma. Á þessum árum fór meðalstærð humranna vaxandi og veiddust upp úr því stærstu humrar sem hafa fengist við Íslandsmið. Síðustu þrjú árin hefur orðið vart við nýliðunarskort og afli á sóknareiningu hefur lækkað en er enn hár í sögulegu samhengi. Síðan 1977 hefur veiðiráðgjöfin byggst á aldurs-afla aðferð (VPA) en síðustu ár hefur tölfræðilegum aldurs-aflalíkönum einnig verið beitt. Fjallað verður um þróun veiðanna og veiðiráðgjöf auk þess að komið er inn á nýjar aðferðir við stofnstærðarmat og almennt um líffræði tegundarinnar.