Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster E14
Árni Kristmundsson (1), Mark A. Freeman (1,2)
1. Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, 2. Ross University School of Veterinary Medicine, Basseterre, St. Kitts, West Indies
Kynnir / Presenter: Árni Kristmundsson
Tengiliður / Corresponding author: Árni Kristmundsson (arnik@hi.is)
Á undanförnum árum hafa umtalsverðar rannsóknir verið stundaðar á smásæjum sníkjudýrum í fiski og skelfiski á Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum í samstarfi við erlenda sérfræðinga. Rannsóknirnar hafa náð til bæði sjávar- og ferskvatnstegunda og hafa fjölmargar áður óþekktar tegundir sníkjudýra greinst. Allnokkrum þeirra hefur verið lýst, og þær því fengið heiti, meðan aðrar eru enn ónefndar. Uppfylla þarf fjölmörg skilyrði til að fá “nýja“ tegund samþykkta af vísindasamfélaginu. Fyrir tíma sameindalíffræðilegra aðferða voru slíkar lýsingar nánast eingöngu byggðar á byggingalegum einkennum sníkjudýrsins þótt aðrir þættir hafi haft ákveðið vægi. Eftir að notkun sameindalíffræðilegra aðferða við tegundagreiningu varð almenn, er slíkra greininga krafist auk eldri aðferða. Þótt þær hafi vissulega reynst góð viðbót, einkum hvað varðar skyldleika við aðrar tegundir og þróunarfræðilega stöðu þeirra, hafa þær einnig skapað ákveðin vandamál. Tegundir sem tilheyra sömu ættkvísl, út frá byggingarlegum einkennum, hafa oft reynst þróunarfræðilega óskyldar. Því virðist sem sama lögun smásærra sníkjudýra hafi þróast oftar en einu sinni sem skapar umtalsverð vandmál við nafngift tegundanna. Í erindinu er farið yfir þær tegundir sem lýst hefur verið síðastliðin fjögur ár og eru afrakstur samvinnu Keldna og erlendra sérfræðinga. Að auki verður tæpt á þeim vandamálum sem upp hafa komið við flokkunarfræði og nafngift tegundanna.