Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster E104

Langtímarannsóknir fiskstofna í Veiðivötnum á Landmannaafrétti

Magnús Jóhannsson, Benóný Jónsson

Veiðimálastofnun Austurvegi 3-5 Selfossi

Kynnir / Presenter: Magnús Jóhannsson

Tengiliður / Corresponding author: Magnús Jóhannsson (magnus.johannsson@veidimal.is)

Veiðivötn eru vatnaklasi í um 560–600 m.h.y.s á Landmannaafrétti. Vötnin eru á vatnsríku, eldvirku og frjósömu lindarsvæði. Nokkur stórgos hafa orðið á svæðinu á sögulegum tíma. Eldgos þessi hafa þeytt gífurlegri ösku og gjalli yfir svæðið. Flest vötnin eru gígvötn sem mynduðust í gosi árið 1477. Tvær fisktegundir, urriði (Salmo trutta) og hornsíli (Gasterosteus aculeatus), eru í vötnunum frá náttúrunnar hendi. Bleikja (Salvelinus alpinus), komst þangað upp úr 1970 eftir sleppingar í nálæg vötn. Vötnin hafa lengi verið nytjuð, í fyrstu með netaveiði en síðari ár með blandaðri stanga- og netaveiði. Árið 1985 hóf Veiðimálastofnun árlegar vöktunarrannsóknir á fiskstofnum vatnanna og hafa þær verið stundaðar samfellt í 31 ár. Gerðar hafa verið fiskrannsóknir á 17 vötnum. Flest árin (30) hafa rannsóknir farið fram á tveimur viðmiðunarvötnum, Stóra-Fossvatni og Litlisjó. Markmið rannsóknanna er að vakta fiskstofna svæðisins, með árlegu mati á ástandi urriðastofna og landnámi bleikju. Auk rannsókna á vettvangi er byggt á skýrslum yfir veiði. Fiskar í Veiðivötnum búa við harðbýl náttúrufarsleg skilyrði, vetur eru kaldir og sumur stutt. Óvíða eru góð hrygningarsvæði fyrir urriða. Bleikju fer fjölgandi í mörgum þeirra vatna sem hún hefur borist í. Í þeim hefur urriðastofninn hopað, orðið undir í samkeppni við bleikjuna. Stækkun bleikjustofnanna hefur þó einkum orðið eftir árið 2000 eða um 30 árum eftir að bleikju varð fyrst vart á Veiðivatnasvæðinu. Allt frá árinu 1965 hefur veiðiskráning verið góð í Veiðivötnum og er hún ein sú besta sem gerist í vötnum hér á landi. Meðalafli síðustu tíu ára er tæpir 27 þús. silungar og hefur um 57% aflans verið urriði. Miklar sveiflur koma fram í afla urriða. Í Stóra-Fossvatni hefur veiði verið frá um 1–50 kg/ha en meðaluppskera á tímabilinu 1986 til 2014 var 9,9 kg/ha. Þetta er svipaður afrakstur og gerist í frjósömum láglendisvötnum hérlendis. Afli í rannsóknarveiðum hefur gefið forspárgildi um veiði á komandi veiðitímabili og því mælikvarði á stofnstærðir. Þrátt fyrir stutt sumur er urriðinn í Veiðivötnum hraðvaxta. Í Stóra-Fossvatni vex urriðinn um 5–7 cm á ári þar til hann verður kynþroska en þá dregur úr vexti. Urriðarnir eru síðkynþroska, verða flestir kynþroska við 7 til 9 ára aldur, þá um 45 cm langir og um 1,3–1,5 kg að þyngd. Vaxtarhraði og kynþroskastærð er líklega að hluta erfðabundnir eiginleikar, en góður vöxtur urriðanna er trúlega vegna ríkulegs fæðuframboðs. Fæða urriðanna í Veiðivötnum er aðallega smádýr sem tekin eru af botni. Vatnabobbi (Lymnaea peregra) er lang algengasta fæðan. Skötuormur (Lepidurus arcticus) er einnig mikilvæg fæða sem og, hornsíli og lirfur rykmýs og vorflugna. Fæðan er þó breytileg á milli vatna og ára. Skötuormur, stórvaxið krabbadýr sem lifir á botni Stóra-Fossvatns, er mikilvæg fæða þar, en þau ár sem mikið er af urriða í vatninu finnst hann lítið í fæðunni. Framboð skötuormsins virðist minnka vegna beitar. Langtímarannsóknir á fiskstofnum Veiðivatna hafa gefið miklar upplýsingar um þróun fiskstofna í íslenskum hálendisvötnum. Gildi þeirra eykst eftir því sem þær standa lengur. Tímabært er orðið að bæta inn fleiri rannsóknarþáttum og er þá nærtækast að líta til smádýrarannsókna.