Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster E103

Breytingar á stofnstærðum bleikju og urriða

Guðni Guðbergsson

Veiðimálastofnun

Kynnir / Presenter: Guðni Guðbergsson

Tengiliður / Corresponding author: Guðni Guðbergsson (gudni.gudbergsson@veidimal.is)

Í kjölfar hnattrænnar hlýnunar hefur verið búist við að fram komi breytingar á líffræðilegum fjölbreytileika ekki síst á norðlægum slóðum. Hvar og á hvaða hátt hefur ekki verið ljóst né heldur hvaða megin áhrifaþættir liggi þar að baki. Tegundir með kalt blóð líkt og fiskar, hafa verið taldar líklegar til að vera viðkvæmir fyrir breytingum í hitastigi sem er beinn áhrifaþáttur á orkubúskap þeirra og afkomu. Ef lífsskilyrði breytast og stofnar tegunda minnka getur það gefið öðrum tegundum möguleika að sækja inn á ný svæði. Bent hefur verið á að bleikja (staðbundin og sjóbleikja) sem er norðlæg tegund með útbreiðslu umhverfis norðurpólinn geti verið ein af þeim tegundum sem líkleg sé til að að vera næm á breytingar á hitastigi og líkleg til að hörfa í kjölfar hækkandi hitastigs. Urriði (staðbundin og sjógengin) er sú tegund laxfiska hér á landi sem næst kemst bleikju í útbreiðslu en hefur jafnan verið með stærri stofna á sunnanverðu landinu á meðan bleikja hefur verið með sterkari stöðu á landinu norðanverðu. Bleikja og urriði standa ofarlega í fæðukeðju áa og vatna á norðlægum slóðum, auk þess sem þær hafa mikið vægi sem nytjastofnar. Á undanförnum 15 árum hafa komið fram miklar breytingar á stofnstærðum og veiði á bleikju og urriða í íslenskum ám og vötnum. Bleikju hefur fækkað verulega en stofnar urriða hafa á sama tíma og í sömu vatnakerfum verið að stækka og auka útbreiðslu sína. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir slíkum breytingum með kerfisbundnum mælingum (vöktun). Einnig er nauðsynlegt að skilja og skýra þá grunnþætti sem valda þessum breytingunum. Hér liggur tækifæri til að greina hvaða ástæður liggja að baki fækkunar bleikju en á sama tíma fjölgunar urriða. Þessar tegundir hafa svipaðan lífsferil með litla samkeppni frá öðrum tegundum hér á landi. Um er að ræða bæði áhrif umhverfisþátta og þátta sem snúa að samkeppni þessara tegunda um búsvæði.