Samsetning hestahópa og stöðugleiki hefur áhrif á félagshegðun og félagsgerð
Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor, Mvs, HÍSamsetning hestahópa og stöðugleiki hefur áhrif á félagshegðun og félagsgerð Rannsókni á félagshegðun hesta hafa verið unnar víða hér á landi síðan 1996. Rannsakendur með höfundi hafa verið innlendir og útlendir nemendur og sérfræðingar. Hóparnir voru mismunandi að samsetningu m.t.t. aldurs og kyns- frá því að vera 6 eins vetra tryppi af sama kyni upp í stóra blandaða hópa. Sá stærsti var hálfvillt 130 hrossastóð þar sem 4 stóðhestar deila sömu 215 ha girðingunni með hryssum, tryppum og folöldum. Sumir hóparnir voru óstöðugir en aðrir stöðugir þar sem fullorðnu hrossin þekktust vel. Áhugaverður munur er á hópum þar sem stóðhestar eru til staðar miðað við álíka stóra hópa með hryssum, geldingum og tryppum. Bæði jákvæð og neikvæð samskipti voru marktæk meiri í hópum án stóðhesta (1). Niðurstöður margþátta aðhvarfsgreiningu á 21 hópi eru kynntar. Athugað var hvaða breytur af 6 útskýrðu marktækan breytileika í þeim þáttum sem lýsa félagsgerðinni, þ.e. eðli virðingaraðar og hins vegar hversu mikið hrossin tengjast vinarböndum (kljást). Þær breytur sem tengdust línuleika virðingarraðar voru hlutfall unghrossa í hópnum (jákvæð tengsl) og hvort stóðhestur var í hópnum (neikvæð tengsl). Breyturnar sem útskýrðu breytileika vinarþels var óstöðugleiki hópa og árásargirni (hvorugtveggja jákvæð tengsl) auk stærð hópa (neikvæð tengsl). Niðurstöðurnar hjálpa okkur að skilja eðli félagsgerðarinnar og hafa líka hagnýtt gildi. Þegar tiltölulega mikið er af tryppum í hópum gengur mikið á og virðingaraðir eru stífari. Viðvera stóðhesta í stöðugum hópum þýðir minni árásargirni og virðingaraðir eru óljósari.
(1) S. M. Granquist, A.G. Thorhallsdottir and H. Sigurjonsdottir, 2012.. “The effect of stallions on social interactions in domestic and semi feral harems, ” Applied. Animal Behavior Science, vol 141, pp. 49-56,