Það er kúnst að kenna vel: Kynning á 5e kennsluaðferðinni
Fjallað verður um s.k. 5e kennsluaðferð, sem félag raungreinakennara og BSCS (Biological Science Curriculum Study ) í USA hafa mælt með síðan snemma á 9. áratugnum (Bybee o.fl. 2006). Aðferðin byggir á rannsóknum á því hvernig fólk lærir og rannsóknum á kennslu þar sem framkvæmd og árangur aðferðarinnar er metinn. Um er að ræða 5 stig í kennslunni : engage (kveikja áhuga), explore (kanna), explain (kryfja), elaborate (kafa meira) og evaluate (kunnátta metin). Hvert stig þjónar ákveðnu hlutverki og rannsóknir hafa sýnt að kennslan verður samfelld og merkingarbær og stuðlar að góðum skilningi nemenda á vísindum og tækni, aukinni færni og jákvæðu viðhorfi til vísinda. Í fyrirlestrinum verður hvert stig skilgreint nánar. Greint verður frá hvað einkennir vinnubrögð kennara og nemenda þar sem kennari leggur upp með þessa aðferð og það borið saman við s.k. útlistunaraðferð sem er líklega algengasta kennsluaðferðin enn þann dag í dag á unglingastigi, í framhaldsskóla og í háskóla. Að lokum verður bent á dæmi um skipulag í líffræðikennslu þar sem gengið er út frá þessari hugmyndafræði (Björg Haraldsdóttir 2010).