Bráðasvar í lirfum og ungviði þorsks
Ónæmisvarnir þorsks eru ósérhæfðar á fyrstu vikunum eftir klak þegar álag er mikið vegna myndbreytinga, vaxtar og upphafs fóðrunar. Rannsóknir á þroskun ónæmiskerfisins eru mikilvægar vegna hlutverks þess í almennum þroska og sjúkdómsvörnum. Ósérhæfða ónæmiskerfið er mikilvægt fullorðnum þorski vegna lélegra sérvirkra varna. 1) þorsklirfum var safnað í ónæmisvefjalitun í 85 daga eftir klak, þunnsneiðar litaðar með sértækum mótefnum gegn þorskapentraxínum CRP-PI og CRP-PII 2) lirfum safnað í 27 daga eftir klak fyrir magnbundna PCR (RT-qPCR) greiningu á genatjáningu CRP-PI, CRP-PII og transferríns 3) ungþorskur sprautaður með terpentínu og sýni tekin úr nýra og milti eftir 1, 24, 72 og 168 klst til RT-qPCR greiningar á CRP-PI, CRP-PII, C3, ApoA-I, transferríni, Il-1b, cathelicidin og hepcidíni. 1) Ónæmislitun sýndi CRP-I og CRP-II strax eftir klak, 50 dögum eftir klak var CRP-I nær horfið en CRP-II óbreytt. RT-qPCR greining sýndi sveiflu í tjáningu pentraxína og aukningu 3 og 4 vikum eftir klak. Tjáning transferríns var hæst á degi 15. 2) Tjáning allra gena minnkaði tímabundið á degi 17 þegar Artemíu er bætt í fóðrið. 3) Einni klst eftir terpentínusprautun jókst tjáning CRP-PI, CRP-II og ApoA-I í nýra þorsks, við 24 klst var aðeins hepcidín í milti hækkað en eftir 72 klst var aukin tjáning á transferríni, Il-1b og cathelicidin í nýra og milti. Aðeins transferrín sýndi aukna tjáningu við 168 klst. Transferrín gæti verið heppilegt til að meta heilbrigði þorsklirfa og ungviðis.