Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 70



Bráðasvar í þorski : kortisól, járnbúskapur og tjáning bráðasvarsgena



Sigríður Guðmundsdóttir (1), Antonella Fazio (2), Bergljót Magnadóttir (1), Caterina Faggio (1) og Birkir Þór Bragason (1)

1) Tilraunastöð H.Í. í meinafræði, Keldum, Keldnavegi 3, 112 Reykjavík
2) Department of Biological and Environmental Sciences, University of Messina, Italy

Kynnir/Tengiliður: Sigríður Guðmundsdóttir (siggag@hi.is)

Bráðasvar leitast við að ná samvægi (homeostasis) í kjölfar áverka, streitu og sýkinga. Svörunin er margþætt og kemur m.a. fram í breytingum á hormónum, virkjun komplementferla og aukinni tjáningu fjölda bráðasvarspróteina.

Þorskseiðum úr eldi var skipt í 3 hópa. Tveir hópanna fengu misstóra skammta af kýlaveikibróðurbakteríu í vöðva, en þriðji hópurinn saltdúa. Fiskum úr hverjum hópi var dreift jafnt í 2 ker. Blóðsýni og vefjasýnum úr milti og nýra var safnað úr 7 seiðum fyrir meðhöndlun (0 klst) og úr öllum hópum þegar 1, 24, 72 og 168 klst voru liðnar frá meðhöndlun. Magn kortisóls og burðargeta transferríns voru mæld í blóðvatni. RNA var einangrað úr miltis- og nýrnasýnum. Tjáning gena sem skrá fyrir IL-1b, transferríni, hepsidíni, C3, ApoA-I, CRP-I og CRP-II var mæld í RTqPCR prófi. Niðurstöður voru staðlaðar samkvæmt mælingum á tjáningu ubiquitins og RPL4.

Magn kortisóls í blóðvatni jókst marktækt eftir sýkingu og var hæst við 72 klst. Á sama tíma var styrkur járns bundinn transferríni hæstur, en lægstur við lok tilraunar. Marktæk aukning varð á tjáningu gena fyrir fyrir IL-1b, hepsidíni og transferríni, að jafnaði meiri í milti en nýra. Tjáning IL-1b og hepsidíns náði hámarki við 24 klst, en tjáning transferríns var enn að aukast í lok tilraunar.

Samkeppni er milli sýkil- og hýsilsameinda við öflun járns. Tjáning á transferrín- geni er á uppleið í lok tilraunar, þótt magn járns sem bundið er sameindinni hafi minnkað, en það gæti bent til víðtækara hlutverks transferríns.