Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 62



Samvinnunám í líffræði



Þóra Víkingsdóttir (torav@msund.is)

Menntaskólinn við Sund

Samvinnunám (cooperative learning) byggir á jafningjafræðslu, nemendur hjálpast að við að afla sér þekkingar og skilnings á því námsefni sem um ræðir hverju sinni. Hlutverk kennara er að fylgjast með og skrá virkni nemenda og gefa leiðbeinandi endurgjöf í lokin. Samvinnunámsaðferðir þjálfa nemendur í ýmsum þeim grunnþáttum og þeirri hæfni sem áhersla er lögð á í aðalnámskrá framhaldsskóla. Margar leiðir eru færar en allar byggja þær á hópavinnu með ströngum reglum og hlutverkaskipan. Það kemur í veg fyrir að einn eða örfáir taki að sér að vinna verkefnið og aðrir séu útilokaðir frá því eða komist upp með að vera meðreiðarsveinar. Aðferðir þessar miða að því að efla virkni nemenda og sjálfstæði, auka hæfni í mannlegum samskiptum og verkefni eru útbúin þannig að þau reyni á ólíkar „greindir“ nemenda. Þannig njóta sín þættir í fari nemenda í samvinnunáminu sem ekki koma fram í hefðbundnum námsaðferðum/kennslu.

Greint verður frá hvernig samvinnunám er notað við líffræðikennslu í Menntaskólanum við Sund. Sýnt verður dæmi um hvernig námsaðferðinni hefur verið beitt til úrlausnar líffræðilegra viðfangsefna. Í því námsferli verða nemendur að leggja saman krafta sína til að leysa opin verkefni og nota sköpunargáfuna til að kynna líffræðileg viðfangsefni.