Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Veggspjald 64


Rannsóknir á lífsferlum smásærra sníkjudýra af fylkingu Myxozoa í íslensku ferskvatni



Hólmfríður Hartmannsdóttir, Guðbjörg Guttormsdóttir, Fjóla Rut Svavarsdóttir og Árni Kristmundsson

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Kynnir: Hólmfríður Hartmannsdóttir
Tengiliður: Árni Kristmundsson (arnik@hi.is)

Myxozoa er fylking smásærra sníkjudýra sem lengi vel var flokkuð til frumdýra (Protozoa). Þrátt fyrir smæð, teljast þau nú til fjölfrumunga (Metazoa) og eru skyldust hveldýrum (Cnidaria). Lífsferill sníkjudýranna krefst tveggja hýsiltegunda, fiska og liðorma (Annelida) en fram til ársins 1984 var talið að beint smit væri milli fiska. Lífsstig í fiskum (myxospore) og í ánum (actinospore) eru mjög ólík að gerð og ekki unnt að greina hvaða myxospore og actinospore tilheyra sömu tegund án DNA-greiningar. Markmið verkefnisins er að greina actinospore-lífsstig í ánum og myxospore-lífsstig í fiskum í íslensku ferskvatni og para saman bæði lífsstigin og sýna fram á hver sé lífsferill tegundanna. Undanfarin sumur hefur ánum af ættkvíslum Lumbriculus (blóðánar) og Tubifex (röránar) verið safnað úr botnseti nokkurra vatna á Reykjavíkursvæðinu. Þeir voru settir í vatn í 24 holu bakka og skoðaðir daglega undir víðsjá og kannað hvort þeir hefðu seytt actinospore-lífsstigum. Sæist eitthvað sem líktist seytingu, var það skoðað undir smásjá til staðfestingar. Gróin voru mæld, myndir teknar af þeim og sýni tekin til DNA-greiningar og til rafeindasmásjárskoðunar. Alls seyttu 15 ánar actinospore-gróum. Byggt á mælingum og útliti gróanna greindust að minnsta kosti 7 ólíkar tegundir. Raðgreining á erfðaefni sníkjudýranna leiðir svo í ljós, með fullri vissu, hve margar tegundirnar eru. Verkefnið er skammt á veg komið. Áfram verður leitað nýrra tegunda í ánum næsta sumar. Því næst verður safnað lífsstigum úr ferskvatnsfiskum, en þegar hafa fundist a,m.k. 12 tegundir í laxfiskum, álum og hornsílum. Öll gró, bæði úr ánum og fiskum, verða raðgreind og actinospore úr ánum og myxospore úr fiskum pöruð saman og lífsferil hverrar tegundar þannig ákvarðaður.