Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Veggspjald 52


Áður óþekkt tegund smásæs sníkjudýrs, Kudoa islandica, sem veldur afurðatjóni í eldis- og villifiski.



Árni Kristmundsson (1) og Mark A. Freeman (2)

1) Tilraunastöð HÍ í Meinafræði að Keldum
2) Institute of Ocean and Earth Sciences, University of Malaya, Kuala Lumpur, Malaysia

Kynnir/Tengiliður: Árni Kristmundsson (arnik@hi.is)

Myxosporea er fjölbreytilegur flokkur smásærra sníkjudýra sem eru algeng í fiskum. Lífsferill er þekktur fyrir sumar tegundir; tveir hýslar koma við sögu,fiskar og liðormar.

Nálægt 100 tegundum Kudoa, sem flestar finnast í vöðva fiska, hefur verið lýst og eru lífsferlar allra þeirra óþekktir. Kudoa er almennt talin meinlitil fyrir fiska en getur valdið miklu afurðatjóni því sníkjudýrið gefur frá sér próteineyðandi ensím sem skemmir holdið eftir dauða fiskanna.

Tilraunaeldi var á hlýra á Íslandi uppúr aldamótunum 2000. Heilbrigðiseftirlit þá sýndi tíðar og umfangsmiklar Kudoa-sýkingar. Við slátrun fiska kom í ljós almenn og umfangsmikil vöðvaeyðing svo afurðin varð óhæf til neyslu. Eftir nokkurra ára tilraunaeldi var eldinu hætt.

Við verkun á siginni grásleppu á Íslandi hafa menn tekið eftir því að hluti grásleppunna rýrnar mikið, eftir sitja hvítir blettir, og fiskurinn ekki neysluhæfur.  

Til að greina orsakir þessara afurðaskemmda, voru 15 fiskar rannsakaðir; 5 grásleppur, 5 steinbítar og 5 hlýrar. Flök voru skoðuð undir víðsjá og smásjá til að leita að gróum og gróhirslum sníkjudýrsins. Skoðun á vefjameinafræði var gerð á sýktum vöðvum auk þess að sýni voru tekin til DNA-greiningar.

Flestir fiskanna, óháð tegund, reyndust smitaðir með áður óþekktri tegund, sem við nefnum Kudoa islandica.

Afurðatjón sökum Kudoa-sýkinga hefur lengi skapað vandamál erlendis, bæði í eldis- og villifiski. Hingað til hafa vandamálin verið einskorðuð við sjókvíaeldi en ekki strandeldi í kerum eins og í eldi hlýrans. Það vekur spurningar um lífsferil Kudoa-tegunda.