Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 71



Nucleospora cyclopteri, áður óþekkt tegund innan-kjarnasníkjusvepps  (Microsporidia) sem veldur umfangsmiklum vefjaskemmdum hjá villtri grásleppu



Árni Kristmundsson (1), Jacob Matthew Kasper (2) og Mark A. Freeman (3)

1) Tilraunastöð HÍ í Meinafræði að Keldum
2) Hafrannsóknastofnunin
3) Institute of Ocean and Earth Sciences, University of Malaya, Kuala Lumpur, Malaysia

Kynnir/Tengiliður: Árni Kristmundsson (arnik@hi.is)

Nytjar af hrognkelsum eru miklar. Hrognin eru seld sem kavíar og nú síðustu ár hefur skapast markaður fyrir fiskholdið. Auk þessa eru hrognkelsi í vaxandi mæli notuð til að hreinsa lús af eldislaxi erlendis. Vorið 2011, tóku grásleppusjómenn eftir afbrigðilega stórum nýrum í hluta veiddra fiska og voru sýni send til rannsóknar að Tilraunastöðinni að Keldum. Í framhaldi af frumgreiningu sýkingar fór fram nákvæm greining á eðli og áhrifum sýkinga. Tíu fiskar, 5 með sjúkdómseinkenni og 5 án einkenna, voru rannsakaðir m.t.t. vefjameinafræði og erfðaefni sýkilsins. Til enn frekari greiningar voru sýni skoðuð í rafeindasmásjá. Auk þessa var tíðni sjúkdómseinkenna metin í hrognkelsum sem veiddust víðs vegar um landið í togararalli Hafrannsóknastofnunar.Orsök sýkinga reyndist vera sníkjusveppur (af fylkingu Microsporidia) en smit greindist í öllum 10 fiskanna burtséð frá því hvort þeir höfðu einkenni sjúkdóms eða ekki. Sveppurinn, sem sýkir kjarna hvítfrumna, veldur umfangsmiklum vefjaskemmdum, einkum í nýrum. DNA-rannsókn sýndi að um áður óþekkta tegund var að ræða sem reyndist erfðafræðilega líkust Nucleospora salmonis, sem er innankjarna sníkjusveppur sem sýkir Atlantshafslax. Tíðni sjúkdómseinkenna í hrognkelsum kringum landið reyndist tæplega 16%. Hin nýja tegund fékk nafnið Nucleospora cyclopteri. Sníkjusveppir sem sýkja kjarna virðast algengir í hrognkelsum við Ísland. Þeir valda umfangsmiklum stórsæjum sjúkdómseinkennum og miklum vefjaskemmdum sem ólíklegt er að gangi tilbaka. Vegna mikilvægis hrognkelsaveiða í N-Atlantshafi sem og notkun þeirra sem hreinsifiska, er brýnt að afla frekari upplýsinga um möguleg áhrif sýkinga á hrognkelsi, bæði villtra og í eldi.