Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 73



Skimun og greining Infectious Salmon Anemia veiru í klaklöxum með magnbundnu rauntíma PCR (RTqPCR)



Heiða Sigurðardóttir, Sigríður Hjartardóttir, Ívar Örn Árnason, Sigríður Guðmundsdóttir og Birkir Þór Bragason

Tilraunastöðin að Keldum

Kynnir/Tengiliður: Heiða Sigurðardóttir (heidasig@hi.is)

Infectious Salmon Anemia  veiran (ISAV) er af flokki Orthomyxoviridae og veldur blóðþorra í laxfiskum. Einkennin eru blæðingar og drep í líffærum sem orsakar alvarlegt blóðleysi. Veiran berst á milli fiska í vatni. Talið er að sjúkdómsvaldurinn haldist við í einkennalausum smitberum í eldisstöðvum og að villtir stofnar

Atlantshafslax og silungs geti borið veiruna. ISAV er hjúpuð veira og erfðamengi hennar, átta einþátta–RNA bútar, hefur verið raðgreint. Meinvirkt afbrigði veirunnar (HPRvir) hefur úrfellingar í hemagglutinin esterase (HE) geni meðan ómeinvirkt afbrigði (HPR0) er ekki með þessar úrfellingar. Engir meinvirkir stofnar ISAV sem greinst hafa eru af HPR0 gerð og er talið að úrfellingar í HE geni þurfi til að veiran valdi sjúkdómi.

RNA úr vefjasýnum (hjarta, nýra og tálkn) og RNA jákvæð viðmiðunarsýni eru keyrð í one-step RT-qPCR (reverse transcription quantitative PCR) hvarfi fyrir bút 8. Ef sýni er jákvætt í því prófi er gert samskonar hvarf fyrir bút 7 og síðan one-step RT-PCR hvarf fyrir bút 6 sem ákvarðar hvort um er að ræða HPR0 eða HPRvir.

Skimað hefur verið fyrir ISAV á Keldum frá árinu 2010. Alls hafa borist um 8000 sýni. Meinvirka afbrigðið hefur aldrei greinst, en HPR0 afbrigðið hefur verið staðfest 74 sinnum.

HPR0 afbrigðið hefur ekki greinst hér áður. Fram til þessa hafa sjúkdómsvaldandi veirur ekki greinst í eldi hérlendis, en með vaxandi sjókvíaeldi eykst möguleikinn á veirusmiti. Slíkt smit gæti aftur aukið smit í náttúrulegum stofnum.