Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Veggspjald 81


Erfðamengjarannsóknir á rjúpu

Kristinn P. Magnússon (1,2), Páll Melsted (3) og Ólafur K. Nielsen (4)

1) Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyrarsetur, Akureyri
2) Háskólinn á Akureyri, Akureyri
3) Háskóli Íslands, Reykjavík
4) Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær

Kynnir/Tengiliður: Kristinn P. Magnússon (kp@ni.is)

Erfðabreytileiki er hráefni þróunar og grundvöllur þess að lífverur og vistkerfi geti aðlagast breyttum aðstæðum eins og loftslagsbreytingum. Grunneining líffræðilegrar fjölbreytni í stofni er erfðabreytileiki einstaklingsins. Stofnar, tegundir, ættkvíslir og heilu vistkerfin standa og falla með fjölbreytileika erfðamengja einstaklinganna. Erfðabreytileiki stofns gefur innsýn í lýðfræðilega byggingu og þróunarsögu stofns. Ör þróun í erfðatækni hefur gert það að verkun að erfðarannsóknir takmarkast ekki lengur við raðgreind tilraunamódel lífvera, heldur er hægt að rannsaka náttúrulega stofna beint, og svara spurningum vistfræðinnar og þróunarfræðinnar með hjálp erfðamengisskimunar. Með því að skoða erfðamengin i heilu lagi er mögulegt að uppgötva erfðagrunn aðlögunar og hæfni einstaklinga til að aðlagast breyttum aðstæðum. Með þessari nálgun hafa orðið til fræðigreinin verndarerfðamengjafræði sem tengir saman erfðamengjafræði, visterfðafræði og verndunarlíffræði. Með ofangreint að leiðarljósi réðumst við í heilerfðamengisraðgreiningu á erfðamengi rjúpunnar (Lagopus muta) og systurtegundinni dalrjúpunni (L. Lagopus). Notast var við næstu kynslóðar raðgreiningartækni með Illumina HiSeq 2000 tæki sem skilaði 70 faldri raðgreiningu á erfðamengjum fuglanna (~1.1 milljarður kirnapör) í 100 kirnapara bútum. Lesraðirnar voru leiðréttar með Quake, raðað saman með SOAPdenovo og gæðaprófuð með CGAL. Niðurstöður úr erfðamengisraðgeiningunni lofa góðu fyrir visterfðarannsóknir á íslensku rjúpunni.