Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Veggspjald 63


Nemendur læra um og meta sjóvarnir við skólann sinn



Þorvaldur Örn Árnason (valdurorn@simnet.is)

Stóru-Vogaskóli

Á umhverfis-þemadögum í Stóru-Vogaskóla 2. – 4. okt. sl. var nemendum í 7.- 10. bekk blandað saman í 14 manna hópa sem unnu 80 mínútna verkefni. Þannig kom hver nemandi að 6 ólíkum verkefnum þessa 3 daga og eitt þeirra var sjóvarnir.Sjóvarnir eru mikið mál á Reykjanesskaga. Brimið hamast á gljúpum hraunum, land sígur og sjávarstaða hækkar vegna hnattrænnar hlýnunar. Víða hafa verið byggðir garðar úr stórgrýti og fleiri í bígerð. Þeir myndar vörn gegn öldunni en hefta útsýni og eru til lýta í fallegum fjörum. Sumum finnst þó þessi manvirki fallegri en náttúruleg fjara.Náttúran hefur einnig sínar sjóvarnir og eru dæmi um að menn vinni með henni að styrkingu sjóvarna. Hér á landi gerist það helst með því að rækta melgresi við sandfjörur. Austan við Þorlákshöfn og í Stóru-Sanvík á Reykjanesi eru mannhæða háir garðar úr sandi og melgresi sem standast álag öldunnar býsna vel. Sjórinn nær að kroppa úr þeim en gróðurinn veitir viðnám og nær yfirleitt að græða sárin. Slíkar sjóvarnir eru lítils metnar og hefur þeim yfirleitt verið komið upp til að verjast sandfoki en ekki ágangi sjávar.Ofan við fjöruna í þéttbýlinu í Vogum eru manngerðir grjótgarðar sem setja svip á umhverfið og mynda vörn gegn briminu. Rétt sunnan við þorpið er einnig 200 m langur garður úr sandi og melgresi sem stofnað var til með lágmarks tilkostnaði fyrir tæpum 30 árum. Hann er orðinn nær mannhæðar hár og 5 m breiður og myndar góða vörn gegn ágangi sjávar.Við Stóru-Vogaskóla og Vogatjörn er eini staðurinn í þéttbýlinu Vogum þar sem ekki hefur verið gerður grjótgarður. Þar er fjaran náttúruleg; hár gróinn bakki við skólan og lægra eiði milli Vogatjarnar og sjávar. Nú hefur Vegagerðin hannað grjótgarð sem ætlulnin er að byggja þarna næsta sumar. Málið er nú til umfjöllunar hjá bæjaryfirvöldum.Auk þess að kenna náttúrufræði í 5. – 10. bekk tek ég þátt í tilraunaverkefni þriggja skóla til að efla lýðræði. Mér fannst tilvalið að leggja þetta sjóvarnarmál fyrir nemendur – reyna á örstuttum tíma að gefa þeim forsendur til að átta sig á um hvað málið snýst og hvað hægt væri að gera, svo þau myndi sér skoðun á því hvort og hvernig þau vilja verjast sjógangi við skólann sinn. Á veggspjaldinu eru glærur sem ég sýndi nemendum og dæmi um nokkrar mis raunhæfar en fróðlegar hugmyndir sem komu fram í þessum 6 hópum.