Aukning á stinglaxi (Aphanopus carbo Lowe,1839) við Ísland
Stinglax er algeng fiskitegund af stinglaxaætt (Trichiuridae) sem finna má við Reykjaneshrygg og í landgrunnshallanum fyrir sunnan og vestan landið (u.þ.b. 500-1000 m dýpi). Stinglaxinn er algengur aukaafli í ýmsum djúpsjávarveiðum (t.d. með djúpkarfa, gulllaxi og grálúðu) en hefur sjaldan veiðst í miklu magni. Undanfarin ár hefur hins vegar orðið vart við aukinn afla í haustralli Hafrannsóknastofnunarinnar. Að sama skapi hefur landaður afli stóraukist undanfarin fjögur ár. Lítið sem ekkert er vitað um fæðuvistfræði þessarar tegundar en líklegt er að orsök þessara aukningar megi rekja til breytinga í samspili afráns og fæðunáms. Ljóst er að lítið er vitað um vistkerfi og fiskasamfélög á landgrunnshallanum og frekari rannsókna er þörf.