Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Veggspjald 11


Hreiðurfjöldi og ábúð ritu í Hvítabjarnarey á Breiðafirði og í fjórum vörpum á utanverðu Snæfellsnesi

Árni Ásgeirsson (1), Róbert A. Stefánsson (2) og Jón Einar Jónsson (1)

1) Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, Stykkishólmi.
2) Náttúrustofa Vesturlands, Stykkishólmi.

Kynnir/Tengiliður: Árni Ásgeirsson (ara17@hi.is)

Rita Rissa tridactyla er einn algengasti sjófugl á Íslandi. Rituvörp á Breiðafirði eru flest lítil en stærri vörp eru á utanverðu Snæfellsnesi.

Árin 2008-2013 var rituvarpið í Hvítabjarnarey við Stykkishólm ljósmyndað tvisvar til fjórum sinnum ár hvert bæði af sjó og bjargbrún, frá fyrstu viku júní til seinni hluta júlí. Fjöldi hreiðra, ábúð og ungaframleiðsla var metin og sýni af eggjum mælt og vigtað. Árið 2011 hófust svo sniðtalningar í fjórum vörpum á utanverðu Snæfellsnesi (Hvalrauf, Skálasnagi, Svalþúfa og Arnarstapi). Þar var fjöldi hreiðra og ábúð metin.

Í Hvítabjarnarey var hámark í fjölda hreiðra í ábúð árið 2012 (551) en lágmark árið á undan (321 hreiður). Meðalfjöldi hreiðra í ábúð 2008-2013 var 430 hreiður. Hlutfall yfirgefinna hreiðra var hæst sumarið 2013 þegar 76% hreiðra höfðu verið yfirgefin í lok júlí. Minnst var um yfirgefin hreiður árið 2012, um 8%. Meðalhlutfall yfirgefinna hreiðra var 37%.

Á sniðum í vörpunum fjórum á utanverðu Snæfellsnesi var ábúð einnig mest árið 2012 (785 hreiður) en minnst árið 2011 (447 hreiður). Í seinni talningu 2011 og 2013 voru yfir 97% hreiðra yfirgefin og 65% árið 2012.