Laxfiskar og umhverfi þeirra í ám í Strandasýslu, á milli Hrútafjarðar og Ingólfsfjarðar
Í Strandasýslu eru fáar gjöfular veiðiár en mikill fjöldi smærri vatnsfalla þar sem neðsti hlutinn er eingöngu fiskgengur. Árið 2012 fór fram rannsókn á tæplega 20 ám á Ströndum, frá Hrútafirði norður til Ingólfsfjarðar. Markmiðið var að kanna samspil umhverfisþátta og útbreiðslu og þéttleika laxfiska. Til að ná settu markmiði var þéttleiki og tegundasamsetning fiskseiða og fæða þeirra rannsökuð. Mælingar voru jafnframt gerðar á efna -og eðliseiginleikum ánna auk þess sem rek hryggleysingja var mælt, magn blaðgrænu og styrkur næringarefna var mældur. Til hliðsjónar voru niðurstöður sambærilegrar rannsóknar á þessu svæði frá 1980. Gefur þessi rannsókn m.a. tækifæri til að meta áhrif loftslagshlýnunar á magn og útbreiðslu laxfiska á Ströndum.
Vatnshiti, rafleiðni og pH-gildi lækkuðu því sem norðar dró. Magn blaðgrænu var hæst syðst á útbreiðslusvæðinu en var síðan marktækt lægra norðan Steingrímsfjarðar. Skörp skil komu fram í útbreiðslu laxfiska, þar sem lax var ríkjandi í ám sunnan Staðarár í Steingrímsfirði en þar fyrir norðan var bleikja ríkjandi. Útbreiðsla lax reyndist í megin atriðum svipuð árið 2012 og 1980. Afar lítið fannst af laxi norðan Steingrímsfjarðar en var þó í nokkrum mæli í Árnesá í Trékyllisvík og er það nyrsti fundarstaður lax í Strandasýslu sem vitað er um. Seiðavísitölur laxa í ánum voru yfirleitt hærri árið 2012 en 1980. Útbreiðslumynstur bleikju reyndist einnig áþekkt og var 1980.