Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 89Líf í affallsvatni háhitasvæðaJón S. Ólafsson (1), Benoit Demars (2), Gísli Már Gíslason (3) og Ragnhildur Þ. Magnúsdóttir (1)

1) Veiðimálastofnun, Keldnaholti, Reykjavík
2) James Hutton Inst. Aberdeen
3) Háskóli Íslands, líf-og umhverfissvið, Reykjavík.

Kynnir/Tengiliður: Jón S. Ólafsson (jsol@veidimal.is)

Jarðhiti er eitt af einkennum náttúrufars landsins og þar skapa háhitasvæðin drjúgan sess. Háhitasvæði eru þau svæði þar sem hiti á 1000 m dýpi í jarðskorpunni er yfir 200 °C. Lífríki háhitasvæða er aðeins þekkt að takmörkuðu mæli. Segja má að mesta þekking sé á örverum og hágróðri enn sem komið er. Lítið er enn vitað um vatnalíf s.s. hryggleysingja eða þörunga í affallsvatni af háhitasvæðum. Meginmarkmið rannsóknarinnar á vatnalífi á háhitasvæðum er að afla grunnupplýsinga um gerðir lífverusamfélaga, hvað mótar vatnavistkerfi á háhitasvæðum og hver virkni þeirra er. Rannsóknin náði til 6 háhitasvæða sem eru á milli 85 og 1051 m h.y.s. Sýnatökur og mælingar voru gerðar í 2-8 lækjum á hverju svæði sem voru á bilinu 3-45 °C heitir. Leiðni í lækjunum var á bilinu 17-757 µS/cm2 og pH-gildi 3,9-9,8. Magn blaðgrænu var vart mælanlegt í sumum lækjanna, eða langt undir 1 µg/cm2 upp í að vera rúmlega 25 µg/cm2. Jókst magn blaðgrænu upp að vissu marki með hækkandi hita, en þar munaði mestu um hlut blágrænna baktería, þá einkum í heitari lækjunum. Ekki voru merkjanleg tengsl á fjölda hryggleysingjahópa né þéttleika þeirra við hita.