Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 57



Nytjaveiðar á villtum dýrum á Íslandi



Tómas Grétar Gunnarsson (1), Menja von Schmalensee (2), Kristinn Haukur Skarphéðinsson (3), Hildur Vésteinsdóttir (4), Auður L. Arnþórsdóttir (5) og Hólmfríður Arnardóttir (6,6,6)

1) Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi
2) Náttúrustofa Vesturlands
3) Náttúrufræðistofnun Íslands
4) Umhverfisstofnun
5) Matvælastofnun
6) Fuglavernd

Kynnir: Kristinn Haukur Skarphéðinsson
Tengiliður: Tómas Grétar Gunnarsson (tomas@hi.is)

Almennt er viðurkennt að veiðar til nytja skuli vera sjálfbærar svo ekki sé gengið á stofna til lengri tíma. Í erindinu verður fjallað um sjálfbærar nytjaveiðar á Íslandi, einkum á fuglum. Rætt verður um hinn líffræðilega grunn sjálfbærra nytja. Við ákvörðun um hvort aflétta skuli friðun á einstökum tegundum og stofnum er gagnlegt að hafa nokkrar meginreglur til hliðsjónar, sem byggja á líffræði tegunda, alþjóðlegum samningum og siðfræði. Farið verður yfir slíkar meginreglur fyrir fugla og rætt hvernig einstakar tegundir og tegundahópar falla að þeim hvað varðar nytjaveiðar og hlunnindi.  Vísað er til skýrslunnar „Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra“ eftir höfunda þessa erindis o.fl. varðandi nánari umfjöllun um efnið.