Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 56



Vernd villtra fugla og spendýra



Tómas Grétar Gunnarsson (1), Menja von Schmalensee (2), Kristinn Haukur Skarphéðinsson (3), Hildur Vésteinsdóttir (4), Auður L. Arnþórsdóttir (5) og Hólmfríður Arnardóttir (6,6,6)

1) Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi
2) Náttúrustofa Vesturlands
3) Náttúrufræðistofnun Íslands
4) Umhverfisstofnun
5) Matvælastofnun
6) Fuglavernd

Kynnir/Tengiliður: Tómas Grétar Gunnarsson (tomas@hi.is)

Til að tryggja vernd villtra dýrastofna gegn fjölbreyttum umsvifum mannsins er nauðsynlegt að líta til margvígslegra þátta, s.s. verndar gegn ofveiði, mengun, ágengum tegundum og ýmiss konar atvinnustarfsemi og framkvæmdum. Vernd vegna þessara þátta á það oft sameiginlegt að fela í sér vernd á búsvæðum villtra dýra. Stofnar þrífast ekki nema þeim séu tryggð búsvæði til fæðuöflunar, æxlunar og annarra lífsnauðsynlegra þátta. Í erindinu verður fjallað um líffræðileg tengsl villtra dýra og stofna þeirra við búsvæði og hvernig búsvæðavernd á Íslandi er fyrir komið í íslenskum lögum. Þá verður rætt um hvernig staða búsvæðaverndar er tryggð í öðrum löndum og stutt yfirlit verður gefið yfir ýmsa málaflokka og athafnir sem geta haft áhrif á vernd villtra dýra á Íslandi. Að lokum verður farið yfir leiðir til úrbóta. Vísað er til skýrslunnar „Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra“ eftir höfunda þessa erindis o.fl. varðandi nánari umfjöllun um efnið.