Vegslóðar — aðferðir við endurheimt staðargróðurs
Á Íslandi hefur myndast umfangsmikið slóðakerfi vegna utanvegaaksturs og framkvæmda. Í gangi er samráðsferli stjórnvalda og hagsmunaaðila um hvaða leiðum skuli halda opnum og færa í skipulag. Fyrir liggur að loka þurfi slóðum sem ekki falla undir þann flokk. Þessir slóðar eru við ólíkar aðstæður og því þarf að beita mismunandi aðgerðum við endurheimt staðargróðurs og landslagsmótun í þeim. Mikilvægt er að þróa aðferðafræði sem hentar við mismunandi aðstæður.
Árið 2011 hófst rannsóknarverkefni sem gekk m.a. út á þróun aðferða við endurheimt staðargróðurs í slóðum í mismunandi gróður- og landgerðum. Lagðar voru út þrjár tilraunir í aflögðum slóðum í mosaþembu og lyngmóa á Suðvesturlandi þar sem prófaðar voru tvær til fjórar meðferðir í hverri tilraun auk viðmiðs, þ.e. áburðargjöf, sáning grasfræs og áburðargjöf, rask á yfirborði og gróðurmottur úr nágrenni slóða, fræslægja, mosagreinar og rask á yfirborði ásamt mosagreinum. Tilraunir voru teknar út 2012 og 2013, auk þess sem mældir voru óraskaðir viðmiðunarreitir (staðargróður) í nágrenni allra tilraunanna seinna árið.
Meðferðareitir voru allajafna með meiri þekju en viðmið. Þekjan minnkaði milli ára, sem m.a. bendir til að áburðaráhrifin séu skammvin. Ákveðnir tegundahópar, s.s. lynggróður, höfðu ekki aukið hlutdeild sína en erfitt er að fullyrða eftir aðeins tvö ár um áframhaldandi þróun þeirra. Í öllum tilraununum var þekja og gróðursamsetning meðferðareita frábrugðin staðargróðri.