Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Veggspjald 75


Árstíðabundinn breytileiki í fjöruvistum á Suðvesturlandi



Íris Mýrdal Kristinsdóttir (1), Sunna Björk Ragnarsdóttir (1), Sölvi Rúnar Vignisson (1), Gunnar Þór Hallgrímsson (2) og Halldór Pálmar Halldórsson (3)

1) Þekkingarsetur Suðurnesja
2) Náttúrustofa Suðvesturlands
3) Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum

Kynnir/Tengiliður: Íris Mýrdal Kristinsdóttir (iris@thekkingarsetur.is)

Staða þekkingar á lífríki íslenskra fjara er samandregin í Zoology of Iceland (Agnar Ingólfsson 2006). Þar er að finna lýsingu á samsetningu lífvera í helstu fjörugerðum landsins. Lítið er hins vegar vitað um árstíðabundinn breytileika í samfélagsgerð smádýra í íslenskum fjörum og fjöldi lykillífvera innan fjörugerða nánast óþekktur hérlendis. Nú standa yfir rannsóknir á árstíðabundnum breytileika meðal fjörulífvera þar sem meðal annars er leitast við að varpa ljósi á þessa þætti innan skilgreindra vistgerða fjörunnar.

Sýnatökur fóru fram í Sandgerði á Reykjanesskaga í byrjun hvers mánaðar árið 2013. Í grýttum fjörum var lögð áhersla á klapparþangsbelti (Fucus spiralis) og klóþangsbelti (Ascophyllum nodosum). Í setfjörum (leira/sandur) var fylgst með breytingum á þremur hæðarbilum í fjörunni. 

Frumniðurstöður gefa til kynna að þær tegundir sem eru í mestu magni sýna mjög greinilega árstíðarbundna sveiflu þar sem fjöldi þeirra eykst gríðarlega á vorin.  Sem dæmi má nefna ánahópinn Enchytraeus sp. þar sem fjöldi einstaklinga fór frá 3 einstaklingum að meðaltali á 100g af þangi í febrúar og upp í 80 dýr í júlí. Hins vegar er það misjafnt hversu langt fram á árið uppsveiflan varir. Fjöldi marflóa (Gammarus sp.) var að meðtali 1 dýr í febrúar á 100g af þangi, náði hámarki með 17 dýrum í júlí og var kominn niður í 6 dýr í september.

Ljóst er að ástíðasveifla og fjöldi og magn lykillífvera eru undirstöðuupplýsingar og nauðsynlegt að þær séu til staðar fyrir frekari rannsóknir á vistfræði íslenskra fjara.