Árstíðabundinn breytileiki í fjöruvistum á Suðvesturlandi
Staða þekkingar á lífríki íslenskra fjara er samandregin í Zoology of Iceland (Agnar Ingólfsson 2006). Þar er að finna lýsingu á samsetningu lífvera í helstu fjörugerðum landsins. Lítið er hins vegar vitað um árstíðabundinn breytileika í samfélagsgerð smádýra í íslenskum fjörum og fjöldi lykillífvera innan fjörugerða nánast óþekktur hérlendis. Nú standa yfir rannsóknir á árstíðabundnum breytileika meðal fjörulífvera þar sem meðal annars er leitast við að varpa ljósi á þessa þætti innan skilgreindra vistgerða fjörunnar.
Sýnatökur fóru fram í Sandgerði á Reykjanesskaga í byrjun hvers mánaðar árið 2013. Í grýttum fjörum var lögð áhersla á klapparþangsbelti (Fucus spiralis) og klóþangsbelti (Ascophyllum nodosum). Í setfjörum (leira/sandur) var fylgst með breytingum á þremur hæðarbilum í fjörunni.
Frumniðurstöður gefa til kynna að þær tegundir sem eru í mestu magni sýna mjög greinilega árstíðarbundna sveiflu þar sem fjöldi þeirra eykst gríðarlega á vorin. Sem dæmi má nefna ánahópinn Enchytraeus sp. þar sem fjöldi einstaklinga fór frá 3 einstaklingum að meðaltali á 100g af þangi í febrúar og upp í 80 dýr í júlí. Hins vegar er það misjafnt hversu langt fram á árið uppsveiflan varir. Fjöldi marflóa (Gammarus sp.) var að meðtali 1 dýr í febrúar á 100g af þangi, náði hámarki með 17 dýrum í júlí og var kominn niður í 6 dýr í september.
Ljóst er að ástíðasveifla og fjöldi og magn lykillífvera eru undirstöðuupplýsingar og nauðsynlegt að þær séu til staðar fyrir frekari rannsóknir á vistfræði íslenskra fjara.