Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 101



Rannsóknir á fóarnssteinum og meltingarvegi rjúpunnar



Aron Freyr Guðmundsson (1) og Ólafur K. Nielsen (2)

1) Hedmark University College – Campus Evenstad, Anne Evenstadsvei 80, 2480 Koppang, Norway
2) Náttúrufræðistofnun Íslands, Urriðaholtsstræti 6–8, P.O. Box 125, IS-212 Garðabær

Kynnir: Aron Freyr Guðmundsson
Tengiliður: Ólafur K. Nielsen (okn@ni.is)

 Rjúpan (Lagopus muta) er mikilvægur nytjafugl víða á norðurslóðum. Íslenski rjúpnastofninn sýnir reglubundnar sveiflur í stofnstærð og stofnsveiflan tekur um 10 ár. Frá árinu 2006 hefur rjúpum verið safnað hvert haust á Norðausturlandi til að rannsaka heilbrigði fuglanna. Meðal annars hafa verið gerðar mælingar á stærð meltingarvegar og á magni og gerð fóarnssteina. Vitað er að meltanleiki fæðunnar hefur áhrif á stærð meltingarvegar og samsetningu fóarnssteina. Tilgangurinn með mælingum okkar er að rannsaka tengsl stærðar meltingarvegar og samsetningu fóarnssteina við líkamsstærð, kyn og aldur og ár. Hafi fæðan hlutverki að gegna í reglubundnum stofnsveiflum rjúpunnar þá er viðbúið að stærð meltingarvegar muni breytast í takt við stofnsveiflu rjúpunnar en með hniki. Niðurstöðurnar sýna mun á aldurshópum, ungar hafa stærri meltingarveg en fullorðnir fuglar og kvenfuglar stærri en karlfuglar. Stærð meltingarvegar og samsetning fóarnssteina hefur einnig breyst marktækt á milli ára. Mikilvægi verkefnisins felst í því að varpa ljósi á forvitnilegt náttúrlegt fyrirbæri nefnilega 10 ára stofnsveiflur grasbíta á norðurslóðum.