Tjáning á manna APOBEC3G í svínafrumum hindrar sýkingu innrænna retróveira úr svínafrumum í mannafrumur
Skortur á efnivið til líffæragjafa hefur orðið til þess að menn hafa notast við efnivið úr öðrum dýrategundum (xenotransplantation). Svín eru álitlegur kostur vegna þess hversu lífeðlisfræðilega lík þau eru mönnum, auk fjölda grísa í goti, stutts meðgöngutíma og hversu erfðafræði þeirra er vel þekkt. Flutningur á líffærum og vefjum milli dýrategunda býður þó upp á hættu á súnum. Hafa menn sérstaklega haft áhyggjur af mögulegum veirusýkingum en sýnt hefur verið fram á að innrænar retróveirur (PERV) úr svínafrumum geta sýkt mannafrumur í rækt (Patience C et al. 1997 Nat Med 3(3):282-6). Aðferðir til að koma í veg fyrir smit eru því eftirsóknarverðar. APOBEC3 (A3) prótein eru fjölskylda cýtóstín deamínasa sem er að finna í spendýrum. Nokkrir fjölskyldumeðlimir eru þekktir fyrir að hindra retróveirusýkingar með því að valda C yfir í U stökkbreytingum í einþátta DNA meðan á víxlritun stendur. Í þessari tilraun voru notaðar samræktanir til langs tíma til að sýna að hægt var að koma nánast alveg í veg fyrir sýkingu ef að manna A3G var tjáð í veiruframleiðandi svína nýrnafrumum. Átti hindrunin sér stað áður en að veiran gat innlimast í erfðamengi mannafrumanna. Hins vegar gat A3 prótein svína ekki komið í veg fyrir sýkingu. Þetta gæti leitt til öruggari svínaefniviðar fyrir líffæragjafir milli tegunda.