Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 103



Lúsflugur á Íslandi: tegundir, hýslar, lífsferill og ásætur



Svavar Örn Guðmundsson (1), Ólafur K. Nielsen (1) og Karl Skírnisson (2)

1) Náttúrufræðistofnun Íslands, Urriðaholtsstræti 6–8, P.O. Box 125, IS-212 Garðabær
2) Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, IS-112 Reykjavík

Kynnir: Svavar Örn Guðmundsson
Tengiliður: Ólafur K. Nielsen (okn@ni.is)

 Um 25 tegundir lúsflugna tilheyra ættkvíslinni Ornithomya, þær eru sníkjudýr á fuglum og lifa flestar í Evrópu, Afríku og Asíu. Þrjár tegundir eru algeng sníkjudýr á spörfuglum og vaðfuglum í Norður- og Vestur-Evrópu: O. chloropus, O. fringillina og O. avicularia. Í þessari rannsókn er spurt þriggja spurninga: (1) Er O. chloropus eina algenga lúsflugan á íslenskum fuglum? (2)  Hver er lífssaga O. chloropus á Íslandi? Það er, hvenær eru flugur á kreiki, kynjahlutföll, „þungunartíðni“ og hýslar. (3) Mikilvægi O. chloropus við að dreifa ytri sníkjudýrum fugla. Alls voru 652 lúsflugur skoðaðar og voru þær allar greindar sem O. chloropus. Flugum var safnað á tímabilinu 16. júní til 11. október. Kynjahlutföllin voru nánast jöfn í júní, en hlutfall karlflugna lækkaði mikið þegar líða tók á sumarið. Þungunartíðni var breytileg á milli mánaða. Ekkert tilvik var skráð í júní og júlí en 22% kvenflugnanna voru þungaðar í ágúst, 29% í september og 19% í október. Ásætumítlamítlar fundust á 181 flugu og þeir tilheyrðu þremur tegundum: Myalges borealis, Promyalges pari og Microlichus avus. Samband þessara mítlategunda og O. chloropus var mismunandi, fullorðin kvendýr bæði M. borealis og M. avus voru föst á lúsflugunum og umkringd eggjum („hyperparasites“), en P. pari var mun fátíðari og nýtti sér lúsfluguna mögulega aðeins sem ferju til að komast á milli fugla. Sérstaka athygli vakti að ungar naglýs fundust aldrei hangandi utan á lúsflugunum en sú aðferð er vel þekkt dreifingarleið.