Rannsóknir á heilbrigði íslensku rjúpunnar Lagopus muta
Stærð íslenska rjúpnastofnsins tekur reglubundnum breytingum, stofninn rís, nær hámarki og hnígur, hver lota tekur um 10 ár. Hliðstæðar stofnsveiflur eru þekktar hjá ýmsum stofnum grasbíta á norðurhveli, bæði meðal skordýra, spendýra og fugla. Fræðimenn hafa ekki verið á eitt sáttir um hvað knýi slíkar stofnsveiflur, margir telja að sveifluvakinn sé innan fæðuvefsins og endurspegli gagnvirkt samspil grasbítsins og þeirra plantna sem hann bítur eða þeirra rándýra og sjúkdómsvalda sem á hann herja. Rannsóknir á heilbrigði rjúpunnar fjalla um möguleg tengsl heilbrigðisþátta við stofnbreytingar. Þetta er samvinnuverkefni hóps sérfræðingar við Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskóla Íslands. Rjúpum (100 fuglum) er safnað einu sinni á ári í byrjun október, jafnframt þessu eru rjúpur taldar vor hvert á rannsóknasvæðinu og aldurshlutföll metin þrisvar sinnum á ári í stofninum. Verkefnið hófst haustið 2006 og það mun vara í a.m.k. 12 ár (til hausts 2017). Eftirtaldir heilbrigðisþættir eru til skoðunar: holdafar, fituforði, sníkjudýrabyrði, heilbrigði fjaðurhams, áviti á ytri varnir (fitukirtill), ávitar á innri varnir (búrsa og milta), áviti á streitu (niðurbrotsefni corticósterón), ávitar á meltanleika/eiginleika fæðunnar (lengd garna og botnlanga, stærð fóarns og lifur, magn fóarnssteina), meinafræði (nýrnaskemmdir) og arfgerðir (MHC-gen). Í erindinu verður fjallað um stofnbreytingar rjúpunnar og lýðfræði og rannsóknir á heilbrigði rjúpunnar kynntar og dæmi gefin um hvernig einstakir þættir hafa breyst í takt við stofnbreytingar.