Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 58



Veiðar til að fyrirbyggja tjón. Hvenær og til hvers?



Menja von Schmalensee (1), Kristinn Haukur Skarphéðinsson (2), Tómas Grétar Gunnarsson (3), Auður L. Arnþórsdóttir (4), Hildur Vésteinsdóttir (5) og Hólmfríður Arnardóttir (6,6,6)

1) Náttúrustofa Vesturlands
2) Náttúrufræðistofnun Íslands
3) Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi
4) Matvælastofnun
5) Umhverfisstofnun
6) Fuglavernd

Kynnir/Tengiliður: Menja von Schmalensee (menja@nsv.is)

Allt frá árdögum Íslandsbyggðar hefur lagasetning um villt dýr borið þess glögg merki að sum dýr voru talin valda tjóni og skaða þar með hagsmuni mannsins. Veiðar á þeim dýrum hafa verið stundaðar öldum saman til að reyna að fyrirbyggja slíkt tjón. Í dag eru nær öll landspendýr veidd í þessum tilgangi, auk sumra sjávarspendýra. Einnig eru leyfðar veiðar á níu fuglategundum sem ekki eru nýttar að ráði og eru veiðar á flestum þeirra réttlættar vegna meints tjóns. Í erindinu verður fjallað um forsendur og afleiðingar þess að aflétta friðun villtra dýra til að verjast tjóni af þeirra völdum. Farið verður yfir helstu flokka tjóns, stöðu tjónvalda m.t.t. uppruna þeirra, nauðsyn þess að skilgreina tjónið sem um ræðir og að aðgerðir gegn villtum dýrum séu í samræmi við tjónið sem þau valda. Einnig verður fjallað um dýravelferðarmál sem vert er að hafa í huga og hvernig aðrar aðgerðir en veiðar til að fyrirbyggja tjón geta í einhverjum tilfellum verið árangursríkari. Rakið verður núverandi fyrirkomulag varðandi veiðar á villtum dýrum sem valda tjóni og settar fram nokkrar meginreglur sem gilda ættu um aðgerðir gegn villtum dýrum til að fyrirbyggja tjón. Rætt verður hvernig bæta megi núverandi fyrirkomulag með meginreglurnar að leiðarljósi. Vísað er til skýrslunnar „Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra“ eftir höfunda þessa erindis o.fl. varðandi nánari umfjöllun um efnið.