Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Veggspjald 10


Breytingar á fæðuvali minks á Snæfellsnesi í upp- og niðursveiflu stofnsins



Rannveig Magnúsdóttir (1,2,3), Menja von Schmalensee (1,2), Róbert A. Stefánsson (1,2), David W. Macdonald (3) og Páll Hersteinsson (1)

1) Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, Reykjavík
2) Náttúrustofa Vesturlands, Stykkishólmi
3) WildCRU, Department of Zoology, University of Oxford, UK

Kynnir/Tengiliður: Rannveig Magnúsdóttir (rannveigm@gmail.com)

Minkur var fyrst fluttur til Íslands 1931, breiddist í kjölfarið um landið og hafði um 1975 numið flest láglendissvæði hér á landi. Veiðitölur benda til að stofninn hafi áfram stækkað allt fram til ársins 2003 en eftir það minnkað hratt. Miklar breytingar virðast hafa orðið á lífríki sjávar á síðasta áratug, sem e.t.v. tengjast breyttu hita- og seltustigi. Sandsílastofninn hrundi með þeim afleiðingum að margir sjófuglar hafa átt í verulegum erfiðleikum, sérstaklega við Suður- og Vesturland. Hins vegar hefur refastofninn margfaldast að stærð síðan um 1970 þegar hann var í sögulegu lágmarki. Til að skoða hvort fæðuval minksins hefði tekið breytingum á þeim tíma sem stofninn dróst saman voru greindar fæðuleifar í mögum 662 minka, sem veiddust á Snæfellsnesi á árunum 2001-2009. Að auki voru stöðugar samsætur greindar í vöðva (n=317) og beinum (n=64) minka, m.a. til að öðlast meiri skilning á uppruna fæðunnar. Hafræn fæða var mikilvæg minknum en á tímabilinu breyttist fæðuvalið marktækt, sem helst fól í sér að neysla fugla minnkaði, auk þess sem fram komu vaxandi merki um vannæringu þegar leið á tímabilið; hvort tveggja sérstaklega hjá steggjum. Þrátt fyrir að minkur sé afar ósérhæfður í fæðuvali og þekktur tækifærissinni virðist sem hann hafi átt erfitt uppdráttar og ekki náð að laga sig að breytingum í umhverfi sínu á síðasta áratug. Þetta gæti haft víðtæka skírskotun varðandi þá ógn sem hnattrænar breytingar geta verið við vistkerfi, þar á meðal rándýr ofarlega í fæðukeðjunni.